Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Þriðjudaginn 09. október 2001, kl. 14:02:16 (263)

2001-10-09 14:02:16# 127. lþ. 6.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 127. lþ.

[14:02]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. sagði að hann kynnti þinginu umfangsmestu skattalækkanir fyrir atvinnulífið fyrr og síðar. Ég hef efasemdir um að þetta sé rétt orðalag. Ég efast um að þessar skattkerfisbreytingar muni koma íslensku atvinnulífi til góða. Þær munu leiða til þess að dregið verður úr þeirri stoðþjónustu sem atvinnufyrirtæki og heimili njóta í landinu. Hitt sé annað mál að þetta mun gagnast þeim fyrirtækjum sem búa við hagnað en ekki hinum sem núna þurfa að þola auknar álögur í formi tryggingaiðgjaldsins.

Spurningin sem ég vildi bera fram til hæstv. ráðherra er þessi: Hvernig svarar hæstv. fjmrh. Íslands Öryrkjabandalaginu sem hefur lýst furðu sinni á því að á sama tíma og dregið er úr skattheimtu við öflugustu og stöndugustu fyrirtæki landins þá er látið undir höfuð leggjast að létta hlut þeirra í íslensku þjóðfélagi sem standa verst að vígi? Öryrki sem hefur 80 þús. kr. á mánuði er skattlagður um 70 þús. kr. á ári. Við þessu er ekki hreyft og ég inni hæstv. fjmrh. eftir skýringum á þessu.