Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Þriðjudaginn 09. október 2001, kl. 14:15:20 (273)

2001-10-09 14:15:20# 127. lþ. 6.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 127. lþ.

[14:15]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Eins og þegar hefur komið fram í orðaskiptum þingmanns Samfylkingarinnar, hv. þm. Einars Más Sigurðarsonar og hæstv. fjmrh., þá er kannski sitthvað í frv. sem þarf að skoða betur. Þar eru kannski tölur sem stemma ekki alfarið.

Ég vil þó segja, herra forseti, að mér finnst andinn í frv. að mörgu leyti jákvæður. Ég hef sagt fyrir hönd Samfylkingarinnar að við munum skoða allar þessar tillögur ákaflega vel og ég held að það sé rétt sem hæstv. fjmrh. sagði í ræðu sinni að þegar allt er skoðað í frv. þá verði afleiðingarnar jákvæðar fyrir atvinnulífið. Ég held að ekki fari hjá því að þegar verið er að lækka skatta af fyrirtækjum í landinu fyrir milljarða hlýtur það að koma þeim til góða. Annað hvort væri nú.

Hins vegar, herra forseti, hljóta alltaf að vakna ákveðnar siðferðilegar spurningar um hvernig ber að nýta það svigrúm sem ríkissjóður hefur til skattalækkunar. Ég segi það ekki síst í árferði eins og núna þegar fyrir liggur að ákaflega margir bera skarðan hlut frá borði. Í íslensku samfélagi eru ákaflega margir sem ekki hafa notið þess góðæris sem við mörg höfum notið á síðustu árum. Við erum í stjórnmálum m.a. til að rétta hlut þessa fólks, a.m.k. við sem teljum okkur jafnaðarmenn og erum í Samfylkingunni og aðrir jafnaðarmenn hvar í flokki sem þeir standa.

Við hljótum auðvitað að velta því fyrir okkur hvort frekar hefði átt að veita eitthvað af þessu fjármagni til að rétta hlut þessa fólks.

Hér er einnig, herra forseti, verið að ræða á málefnalegan hátt grundvallaratriði sem varðar réttmæti þess, tilgang og afleiðingar, að lækka skatta á fyrirtæki. Hugmyndafræði hæstv. fjmrh. er eftirfarandi:

Með því að lækka skatta á fyrirtæki er verið að bæta rekstrarumhverfi þeirra. Verið er að koma í veg fyrir að íslensk fyrirtæki flýi til útlanda og einnig er verið að laða fram stofnun nýrra fyrirtækja, verið er að auka veltu í samfélaginu og þar með að auka tekjur hins opinbera, treysta grundvöll atvinnulífsins í landinu. Ég er sammála því, herra forseti, að til þess að geta haldið úti góðri velferðarþjónustu þurfum við öflugt atvinnulíf. Þetta tvennt helst í hendur. Það er skoðun okkar í Samfylkingunni að ekki sé hægt að bæta velferðarkerfið, ekki sé hægt að halda því í núverandi stöðu nema atvinnulífið sé sterkt og hvíli á sterkum stoðum.

Gegn þessu er teflt öðrum rökum. Það er t.d. athyglisvert að í þeirri ályktun Alþýðusambands Íslands sem hæstv. fjmrh. hefur átt nokkurn orðastað um við mig fyrr í umræðunni, er öðru haldið fram. Þar er einfaldlega sagt að ekkert bendi til annars en að hækkun tryggingagjaldsins t.d. muni fara beint út í verðlag, muni þar með auka verðbólgu og með þeim hætti leiða til beinnar kaupmáttarskerðingar fyrir fólk í landinu.

Þetta eru rök, herra forseti, sem eru sett fram af hagfræðideild Alþýðusambands Íslands og menn hljóta auðvitað að skoða þetta út í hörgul.

Hæstv. fjmrh. heldur því fram að aðgerðir ríkisstjórnarinnar efli veltu fyrirtækjanna og þær auki umsvif viðskipta í landinu og þar með aukist tekjur ríkissjóðs. Þar með geti hæstv. fjmrh. þegar fram í sækir eða sá sem situr þá í hans stóli haft meira fjármagn til þess að styrkja velferðarkerfið.

Alþýðusamband Íslands er einfaldlega á annarri skoðun. Þetta er mjög athyglisverð deila sem mér finnst að við þurfum að taka til umræðu. Alþýðusambandið telur að þegar allt er skoðað, þá leiði þessar boðuðu aðgerðir ríkisstjórnarinnar til minni umsvifa og samdráttar í viðskiptum. Getur verið, herra forseti, að báðar þessar skoðanir séu réttar? Það getur verið að þegar maður skoðar hugmyndir hæstv. fjmrh. einar og sér um að lækka skatta á fyrirtækjum, þá hafi hann fullkomlega rétt fyrir sér um að það muni í framtíðinni leiða til aukinnar veltu sem muni styrkja atvinnulífið og þar með auka tekjur ríkissjóðs og hjálpa samfélaginu til að halda úti góðri og öflugri velferðarþjónustu. En hins vegar þegar tillögum hæstv. fjmrh. um að efla og auka tryggingagjaldið er bætt við þessar skattalækkanir getur vel farið svo að það sé Alþýðusambandið sem hafi rétt fyrir sér. Ég vil a.m.k. leyfa mér að halda því fram að fyrirtæki, eins og ég kem að síðar í ræðu minni, á landsbyggðinni fari ekki vel út úr þessu. Ég vil leyfa mér að halda því fram að þegar lögð eru saman áhrif allra þeirra tillagna sem koma fram í frv. hæstv. fjmrh. komi fyrirtæki á landsbyggðinni verr út heldur en þau gera í dag.

Ég held líka að sú varnarræða sem á köflum var þrungin sannfæringu og ástríðuþrótti fyrir áhrifum skattbreytinganna á sprotafyrritæki, sólrisugreinarnar, að rök hæstv. ráðherra hafi ekki að öllu leyti verið rétt, þau hafi verið rétt að því marki sem nær til fyrirtækja í þeim greinum sem eru að hasla sér völl erlendis en ekki þeirra litlu fyrirtækja sem eru að verða til hér innan lands, fyrirtækja sem á sínum tíma voru ákaflega smá eins og nafni minn Össur hf., Marel og fleiri.

Við skulum skoða, herra forseti, við hvaða aðstæður þessar tillögur eru settar fram. Ég vil líka áður en ég held áfram máli mínu segja að þó að menn geti haft efasemdir um hversu lengi þessar tillögur voru í undirbúningi í fjmrn. og þó að við í stjórnarandstöðunni, einhverjir okkar, kunni að hafa sproksett hæstv. ráðherra varðandi það að þetta hafi verið hrist fram úr erminni til þess að svara ákveðinni gagnrýni, þá verð ég að hrósa honum fyrir það að tímasetningin hvort sem hann ætlaði að setja þetta fram á þeim degi sem hann gerði eða ekki, var hárnákvæm. Hæstv. ráðherra hafði þá verið grimmilega gagnrýndur, bæði af stjórnarandstöðu og líka ýmsum leiðandi aðilum innan fjármálamarkaðarins fyrir veikar stoðir fjárlagafrv. og búið var að sýna fram á að ýmsar meginforsendur frv. stóðust ekki lengur. Við þær aðstæður bilaði trú markaðarins að sjálfsögðu og það birtist í því, herra forseti, að staða krónunnar veiktist. Seðlabankinn þurfti að grípa inn í myntmarkaðinn eins og þurfti reyndar líka í gær með fordæmalitlum hætti. Við þær aðstæður var gríðarlega sterk nauðsyn fyrir því að hið opinbera spilaði út einhverjum aðgerðum til að reyna að efla trú markaðarins.

Auðvitað fer ekki hjá því að þegar lagðar eru fram skattalækkunartillögur sem hlaupa á milljörðum hlýtur það að efla trú markaðarins og það var hárrétt hjá hæstv. ráðherra að flýta framlagningu þessara tillagna og koma fram með þær á þessum degi.

Herra forseti. Hvernig stendur á því að nauðsynlegt er að veita þessa blóðgjöf, veita þetta nýja súrefni og koma með þessa vítamínsprautu inn í íslenskt atvinnulíf? Nauðsynin byggir auðvitað á því að ákveðin mistök hafa orðið við hagstjórnina. Þegar við horfum í kringum okkur blasir það við að verðbólga á Íslandi er þrefalt hærri en í löndunum sem við erum að keppa við. Halda menn að þetta hafi ekki áhrif á stöðu fyrirtækjanna í landinu? Halda menn að þetta leiði ekki til aukins kostnaðar fyrir fyrirtækin í landinu? Að sjálfsögðu. Og við erum í þeirri hættu, herra forseti, að þessum kostnaðarhækkunum af verðbólgunni verði þrýst áfram út í verðlagið og þar með séum við komin inn í þennan argvítuga spíral fortíðarinnar þar sem verðbólgan býr til verðhækkanir sem þrýsta á um enn frekari verðbólgu.

Sömuleiðis, herra forseti, er alveg ljóst að vaxtastig á Íslandi er fullkomlega óviðunandi. Það er miklu hærra en í þeim löndum sem við höfum borið okkur saman við og erum að keppa við. Eins og kom fram hjá hæstv. fjmrh. í umræðum um fjárlagafrv. er einfaldlega óviðunandi fyrir fyrirtækin í landinu að búa við þetta vaxtastig. Vaxtastigið er að kyrkja íslenskt atvinnulíf. Hvers vegna eru vextir þá ekki lækkaðir eins og hæstv. fjmrh. vill, eins og hæstv. forsrh. telur nauðsyn á, eins og við erum auðvitað öll að kalla eftir? Ástæðan er einföld.

Ríkisstjórnin hefur sett Seðlabanka Íslands ákveðin verðbólgumarkmið og bankinn verður að fara eftir þeim. Hann hefur svo að segja eitt tæki og það eru vextirnir, það er stýring vaxta. Það umhverfi sem ríkisstjórnin hefur skapað hér á landi er einfaldlega þess eðlis að Seðlabankinn treystir sér ekki til þess að lækka vexti. Þvert á móti má segja að hér á landi hafi orðið vaxtahækkun. Ég segi þetta, herra forseti, vegna þess að ef maður skoðar hlutföll vaxtaþróunar hér og erlendis, þá er þetta rétt. Það er þannig að erlendis hafa vextir verið að lækka, meira að segja hríðlækka en þeir hafa staðið í stað hér heima á Íslandi. Það þýðir auðvitað ekkert annað en hlutfallsleg vaxtahækkun.

Við þessar aðstæður, herra forseti, er eðlilegt að menn skoði einhverjar aðrar leiðir til að reyna að leysa úr læðingi vaxtaþrótt í atvinnulífinu. Það er ekki hægt að lækka verðbólguna nákvæmlega núna. Vegna ríkisstjórnarinnar er ekki hægt að lækka vexti. Þá er spurning: Er hægt að veita nýtt súrefni inn í æðakerfi atvinnulífsins með því að lækka skatt á fyrirtæki?

Við í Samfylkingunni höfum sagt að við séum fyllilega reiðubúin til að skoða skattalækkanir hjá fyrirtækjum. Við höfum að vísu sagt að það væri langbest að hnitmiða svigrúmið á lítil og meðalstór fyrirtæki. Við höfum líka tekið sérstaklega út þekkingarfyrirtækin, sprotafyrirtækin og sagt að einhvern veginn þurfi að búa til leiðir til þess að greiða fyrir þeim. Skattalækkanirnar sem hæstv. fjmrh. hefur boðað í frv. sínu gagnast þeim ekki. Hvernig eru þessi fyrirtæki í dag? Rekstrarform þeirra er talsvert öðruvísi heldur en hinna hefðbundnu fyrirtækja. Þau eiga ekki húseignir, leigja þær. Hvar liggur fjármagn þeirra? Það liggur í þekkingunni sem býr í höfði vinnuaflsins. Segja má að þessi fyrirtæki séu öðruvísi en önnur fyrirtæki á Íslandi að því leyti til að fjármagnið, kapítalið stendur upp úr sætum sínum kl. 6 á kvöldin og labbar heim. Það er enginn hagnaður hjá þessum fyrirtækjum. Yfir línuna er enginn hagnaður hjá þeim, þau eru að byggja sig upp og urðu illilega úti í þeirri lægð sem við höfum núna lent í með efnahagslíf okkar. Þess vegna þýðir lítið að hjálpa þeim með því að lækka skatta á hagnaði þessara fyrirtækja.

Er einhver hjálp í að hækka tryggingagjaldið? Að sjálfsögðu ekki. Kostnaður þessara fyrirtækja liggur að verulegu leyti í launagjöldum og tillögur hæstv. fjmrh. auka launakostnaðinn hjá þeim. Þess vegna er auðvelt að halda því fram eins og þetta mál horfir við í dag að tillögur ríkisstjórnarinnar leiði til þess að umhverfi sprotafyrirtækjanna versnar. Hvað er það sem ég og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson ætlum að lifa á í ellinni? Við ætlum auðvitað að lifa á þeirri framlegð sem kemur frá þessum fyrirtækjum, þessum nýju fyrirtækjum. Það var þess vegna þegar hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson tók þátt í því fyrir tveimur eða þremur árum að skrifa greinargerð með fjárlagafrv. og það voru heilar þrjár blaðsíður um hversu mikilvægt hlutverk þessi fyrirtækin væru tekin að leika í íslensku efnahagslífi. Nú blasir það við, þess er a.m.k. óskað af hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni, varaformanni fjárln., að hann styðji frv. sem gengur í þveröfuga átt.

Herra forseti. Ég sagði áðan að siðferðilegar spurningar vakna þegar maður stendur andspænis svona skattapakka. Hæstv. fjmrh. segir: Það er svigrúm til að lækka skatta, m.a. vegna þess að hann er að selja ríkisfyrirtæki og hann notar andvirðið til að greiða niður skuldir ríkisins í útlöndum, og þá þarf hann ekki að borga eins mikla vexti. Við höfum svigrúm. Gott og vel. Hvernig eigum við að nota svigrúmið? Það er alveg prýðilegt að velta því fyrir sér að nota hluta þess til að lækka skatta á fyrirtækjum.

En hvað með fátækt fólk á Íslandi? Hvað fær það í sinn hlut? Við jafnaðarmenn höfum sagt að ef lækka á skatta á fyrirtækjum, þá verði líka að lækka skatta á þeim sem eiga erfiðast í íslensku samfélagi. Það má segja hæstv. fjmrh. til hróss að hann stígur skref í þá átt. Hann hefur tekið upp tillögu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur sem hefur barist fyrir því árum saman að skattur á húsaleigubætur væri afnuminn. Það er gert í þessu frv. og ég fagna því. En það er ekki nóg, herra forseti. Ef við skoðum t.d. þróun skattleysismarka, þá sjáum við hvernig þeir sem minnst bera úr býtum hafa verið leiknir af skattastefnu núverandi ríkisstjórnar.

[14:30]

Síðan 1990 hafa meðallaun samkvæmt launavísitölu Hagstofunnar hækkað um 80%. Þá er átt við launaskrið og allt innifalið. Umsamin laun hafa á sama tíma hækkað um 40%. En hvað hafa skattleysismörkin hækkað á þessum tíma? Um 21%. Þetta er ástæðan fyrir því að þegar maður skoðar staðtölur frá ríkisskattstjóra, þá birtist sú staðreynd að á síðasta ári fjölgaði framteljendum um 1,8% en virkum skattgreiðendum fjölgaði um 6,8%. Hvaðan komu þessi 5% sem allt í einu voru farin að borga skatta? Það var fátækt fólk á Íslandi. Það voru bótaþegar á Íslandi sem lifa af bótum velferðakerfisins af því að þeir geta ekki dregið fram lífið á annan hátt. Það er verið að skattleggja þetta fólk. Menn hljóta að þurfa að svara þeirri siðferðilegu spurningu: Verður ekki að rétta þessu fólki eitthvað þegar við erum að rétta fyrirtækjum milljarða? Þetta er spurningin sem við þurfum auðvitað að velta fyrir okkur.

Herra forseti. Aðeins um tryggingagjaldið. Ég fékk Þjóðhagsstofnun til að kanna nokkra þætti úr samræmdu skattframtali rekstraraðila vegna ársins 2000 eins og ríkisskattstjóri afhenti stofnuninni þau gögn. Þetta eru gögn sem ná yfir 10.600 aðila sem skiluðu samræmdu skattframtali, aðallega lögaðilar. Þarna er um að ræða úrvinnslu úr tilteknum liðum í framtalinu til að fá fram hlutfallslega skiptingu hagnaðar og taps eftir landshlutum annars vegar og hins vegar yfirlit um afkomu þekkingarfyrirtækja. Og að því er þekkingarfyrirtækin varðar, herra forseti, er skemmst frá því að segja að niðurstaða Þjóðhagsstofnunar er sú að flest fyrirtæki í þessum greinum hafi verið rekin með tapi árið 1999. Með öðrum orðum, skattalækkanirnar gagnast þessum fyrirtækjum ekkert miðað við gögnin frá Þjóðhagsstofnun.

Í þessum gögnum er líka sláandi að fram kemur að yfirgnæfandi hluti, eða 85%, af hagnaði fyrirtækja á árinu 1999 --- þetta eru nýjustu gögnin --- verður til á höfuðborgarsvæðinu. Einungis 15% eru hjá fyrirtækjum sem eru skráð á landsbyggðinni. Þetta veldur því að ávinningur af skattalækkun ríkisstjórnarinnar kemur miklu síður fram á landsbyggðinni. Þessar 2.700 millj. sem fyrirtækin eiga að fá í sinn hlut í skattalækkunum falla fyrst og fremst á höfuðborgarsvæðið.

Nú kynni einhver að segja að með góðum rökum mætti samt halda því fram að landsbyggðin nyti alltént hluta af skattalækkunum þótt það væri í hlutfallslega minna mæli en höfuðborgarsvæðið, en ég dreg í efa að hægt sé að halda slíku fram. Tryggingagjaldið leggst miklu þyngra á þau miðað við þær upplýsingar sem ég hef fengið í gögnum frá Þjóðhagsstofnun. Þar kemur fram að þó að fyrirtæki sem eru skráð á landsbyggðinni hafi bara 15% heildarhagnaðar fyrirtækja, þá greiða þau samt 35% launanna þannig að tryggingagjaldið væri þeim flatur launaskattur sem leggst á vinnuafl. Þetta þýðir í reynd að fyrirtæki á landsbyggðinni greiða 35% af þeim viðbótarkostnaði sem leggst á fyrirtæki í landinu vegna hækkunar á tryggingagjaldi en þau njóta aðeins 15% af ávinningi tekjuskattslækkunarinnar. Þetta er miðað við þau nýjustu gögn sem við höfum um skatta og ég tek fram að þetta er miðað við árið 1999 vegna þess að Þjóðhagsstofnun hafði ekki nýrri gögn.

Hvað þýðir þetta miðað við þessar upplýsingar? Ávinningur fyrirtækja vegna lækkunar á tekjusköttum fyrirtækja er 2.700 millj. og miðað við gögn Þjóðhagsstofnunar má ætla að fyrirtæki á landsbyggðinni fái í sinn hlut 15% eða um 400 millj. kr. Útgjaldaaukning fyrirtækjanna vegna hækkunar á tryggingagjaldi er hins vegar 2.500 millj. og gögn Þjóðhagsstofnunar virðast benda til þess að fyrirtæki á landsbyggðinni þurfi að taka á sig 35% af því eða 875 millj. Munurinn er því hálfur milljaður í mínus þegar horft er til landsbyggðarinnar meðan höfuðborgarsvæðið hagnast um 600--700 millj. Þetta er að vísu fljótareikningur sem byggður er á þeim upplýsingum sem ég fékk frá Þjóðhagsstofnun í morgun og ég tek fram að ég er þarna einungis að bera saman tryggingagjaldið og síðan tekjuskattsbreytingarnar. Ég er ekki að taka neitt annað inn í þetta, en mér sýnist sem þetta bendi til þess að þó að það sé rétt sem hæstv. fjmrh. segir að í heild muni þessar skattbreytingar hafa jákvæð áhrif á atvinnulífið í landinu, þá er alveg ljóst að þær muni ekki hafa jákvæð áhrif á fyrirtækin á landsbyggðinni.