Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Þriðjudaginn 09. október 2001, kl. 14:37:39 (278)

2001-10-09 14:37:39# 127. lþ. 6.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 127. lþ.

[14:37]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hér er um að ræða margþættar breytingar í skattkerfinu en þær eru helstar að til stendur að lækka tekjuskatta fyrirtækja úr 30% í 18% og gildir sú breyting frá 1. janúar 2002. Talið er að þetta muni kosta ríkissjóð 2.700 millj. kr.

Gert er ráð fyrir að sérstakur eignarskattur fyrirtækja falli niður í lok þessa sama árs. Sú skattkerfisbreyting mun kosta ríkissjóð 400 millj. Gert er ráð fyrir að eignarskattur fyrirtækja lækki í árslok 2002 um 1.100 millj. þegar skattprósentunni verður breytt úr 1,2 í 0,6%.

Fríeignarmörk í eignarskatti einstaklinga eiga að hækka um 20% í árslok árið 2001 en gert er ráð fyrir að það muni leiða til þess að ríkissjóður verði af 1.000 millj. Gert er ráð fyrir að fríeignarmörk í sérstökum tekjuskatti einstaklinga hækki um 15% á árinu 2001. Þetta mun leiða til þess að ríkissjóður verður af 600 millj. kr. Hvað þýðir þessi breyting í reynd? Hún þýðir að verið er að hækka þau mörk sem eru á svokölluðum hátekjuskatti en á tekjur umfram þessi mörk er lagt sérstakt álag sem nemur 7%. Byrjað er að leggja þennan skatt á við um 275 þús. kr. á mánuði og til stendur að hækka þau þannig að þau verði 322 þús. kr. árið 2001 og 331.667 kr. árið 2002. Menn eru að koma til móts við þennan tekjuhóp sérstaklega með þessari breytingu með því að létta byrðar á millitekju- og hátekjuhópum vegna þess að þessi skattprósenta, 7% skattur, kemur einvörðungu á þær tekjur sem eru umfram þetta mánaðarkaup, 331 þús. kr. á árinu 2002. Það er rétt að hafa þessar stærðir í huga þegar við hyggjum að skattleysismörkunum og þegar við hyggjum að þeim kröfum sem Öryrkjabandalagið hefur sett fram.

Það er breyting á sérstökum eignarskatti einstaklinga, gert er ráð fyrir að hann falli niður í árslok 2002. Það er gert ráð fyrir að eignarskattur einstaklinga lækki úr 1,2% í 0,6% í árslok 2002. Það mun kosta ríkissjóð 2 milljarða. Tekjuskattur einstaklinga á síðan að lækka um 0,33% frá 1. janúar 2002. Það mun kosta 1.250 millj. kr. á árinu 2002. Hér er rétt að hafa í huga að þetta er hluti af viðameiri skattbreytingum sem við höfum rætt áður á þinginu, en eins og menn kunna að muna var sveitarfélögum veitt heimild til að hækka útsvar allverulega en ríkissjóður eða ríkið lækkaði tekjuskattshlutfallið á móti. Þetta hafði þó í för með sér skattahækkun á einstaklinga sem nam 0,33% þegar upp var staðið og það var gagnrýnt í þingsal að persónuafslættinum var ekki breytt á sama tíma og þetta var gert og það hefur í för með sér að skattleysismörkin lækka að raungildi. Við höfum áður farið í gegnum þessa umræðu.

Síðan er gert ráð fyrir að skattlagning húsaleigubóta falli niður frá 1. janúar 2002, nokkuð sem við úr stjórnarandstöðunni höfum fagnað hér. Hitt höfum við meiri efasemdir um, að hækka tryggingagjald um 0,77% frá 1. janúar árið 2003. Þetta mun að sönnu afla ríkissjóði umtalsverðra tekna. Talið er að þetta muni færa 2.500 millj. inn í ríkissjóð. En þegar upp er staðið er gert ráð fyrir því í grg. með frv. að nettóáhrif þessara skattalækkana verði 3 milljarðar á árinu 2002, 4,1 milljarður á árinu 2003.

Nú hafa menn rætt nokkuð um hvort þetta komi til með að gagnast efnahagslífinu og þá sérstaklega fyrirtækjum í landinu og ýmsir orðið til að taka undir að svo muni verða. Sjálfur hef ég miklar efasemdir um það. Í fyrsta lagi gagnast þetta að sjálfsögðu einvörðungu þeim fyrirtækjum sem búa við hagnað vegna þess að um er að ræða lækkun á tekjuskatti fyrirtækja á þeim tekjum sem fyrirtækin eru að afla, hagnaði þeirra. Á hin fyrirtækin sem engan hagnað sýna eru hins vegar settar auknar álögur. Tryggingagjaldið hækkar um 0,77% og það þannig fært upp í 6%.

[14:45]

Fyrir nokkrum árum var sett fram sú kenning vestur í Bandaríkjunum og kennd við Reagan og Margréti Thatcher einnig að það væri atvinnulífinu óumdeilanlega til góðs að lækka á það skatta. Í því sambandi var oft talað um brauðmolakenninguna sem byggði á því að ef hinum öflugu og tekjumiklu einstaklingum og fyrirtækjum væri veitt nóg svigrúm til að baka sín stóru brauð þá mundu molar af þeirra borði hrjóta til annarra í samfélaginu. Þetta reyndist ekki verða. En þessari kenningu var haldið hér á loft af einum helsta efnahagssérfræðingi Sjálfstfl., hv. þm. Pétri H. Blöndal, sem skýrði það út fyrir okkur þingmönnum og þjóðinni að því lengra sem við gengjum í því að lækka skatta, því meira hagnaðist samfélagið allt. Hæstv. fjmrh. var í raun að taka undir þessi sjónarmið í ræðu sinni áðan þegar hann sagði að það væri sérstaklega til góðs að lækka skatta á hlutafélög og fyrirtæki í landinu. Hvers vegna? Vegna þess að þau fyrirtæki sem ríkisstjórnin er að selja mundu hækka í verði, þau mundu hækka svo mikið í verði að ríkissjóður mundi fá meira fyrir þessa mola sem verið er að gefa út og suður eða selja öllu heldur --- það er í því samhengi reyndar sem þetta er sett fram --- að samfélagið og ríkissjóður mundi hagnast á þessari sölu. Þetta er hugsun af sama meiði sem ég held að sé afskaplega vafasöm.

Mig langar til að nefna í því sambandi að gerðar hafa verið kannanir þar sem fyrirtæki hafa verið spurð að því hvað þau telji mikilvægast að sé til staðar í samfélaginu til þess að þau setji sig niður. Það hafa verið gerðar kannanir á Norðurlöndum. Hvað er mikilvægast að sé til staðar í samfélaginu til að þau komi sér fyrir á þeim stað? Svörin hafa verið mjög á einn veg: Við viljum hafa góða leikskóla, góða skóla, góð sjúkrahús, elliheimili og við viljum búa við góðar samgöngur. Við viljum hafa afnot af netinu og aðgengi að því. Fólk spyr um það núna. Með öðrum orðum, þá er vísað í stoðþjónustu samfélagsins. Hún er að sjálfsögðu nauðsynleg fyrirtækjum og atvinnulífinu jafnt sem fjölskyldum. Að sjálfsögðu er þetta samtengt og ég er að setja þessar efasemdir fram í því samhengi að menn halda því fram að skattalækkanir á fyrirtæki muni ótvírætt koma þeim til góða þegar upp er staðið. Ég efast um að svo sé vegna þess að skattar eru notaðir til þess að fjármagna þessa þjónustu sem er þeim síðar mikilvæg.

Hvers vegna ræðst ríkisstjórnin í þessar breytingar? Hún segir og því hefur verið haldið fram í gögnum sem frá henni hafa komið síðustu daga að hún sé að gera íslenskt atvinnulíf samkeppnishæfara. Menn hafa í því sambandi vísað í samanburð á skattlagningu fyrirtækja í OECD og í Evrópusambandinu. Í ritinu Stefnu og horfum sem fylgir frv. til fjárlaga, með leyfi forseta, er eftirfarandi m.a. haldið fram:

,,Margt bendir til þess að íslenskt atvinnulíf búi ekki lengur við það forskot sem hér ríkti í skattalegu tilliti á síðasta áratug.``

Ég veit ekki hvað þetta ,,margt`` er sem talið er benda til þess að svo sé vegna þess að þegar að er gáð --- og hér byggi ég á heimildum frá OECD sem ég fékk fyrir fáeinum dögum frá Þjóðhagsstofnun --- kemur fram að íslensk fyrirtæki eru skattlögð miklu minna en gerist almennt innan OECD. Þannig er tekjuskattur fyrirtækja á Íslandi 1,2% af vergri landsframleiðslu á móti 3,2% í OECD. Þetta á reyndar við um skattlagningu almennt. Þegar litið er til tekjuskatta einstaklinga, þegar litið er til launa- og tryggingagjalda þá erum við með mun lægri skatta. Það er helst þegar litið er til skatta á vöru og þjónustu að við liggjum hærra. Þar erum við með skatta sem nema 16,2% af vergri landsframleiðslu á móti 12,4% hjá Evrópuríkjum OECD sem ég hef tekið til viðmiðunar. Þegar hins vegar litið er á heildina þá eru heildartekjur eða heildarskatttekjur á Íslandi miklu lægri en gerist innan OECD, að ekki sé minnst á Norðurlöndin, eða 35,9% af vergri landsframleiðslu á móti 47,9% á Norðurlöndum og 39,8% í Evrópuríkjum OECD.

Aðrar spurningar vakna þegar við hyggjum að þeim skattkerfisbreytingum sem ríkisstjórnin stendur fyrir vegna þess að sú þjónusta sem við búum við á heilbrigðissviði, í skólakerfinu, í vegasamgöngum og annars staðar í því sem kallað hefur verið stoðþjónusta samfélagsins, er nokkuð sem flestir og allir eflaust vilja viðhalda. Við deilum um hitt, hvernig við ætlum að formagna hana, hvernig við ætlum að borga fyrir hana. Ætlum við að borga fyrir hana í gegnum skattkerfið eða ætlum við að borga í beinum notendagjöldum? Um þetta stendur mikil pólitísk deila í þjóðfélaginu. Ríkisstjórnin hefur komið alveg heiðarlega fram í þessu efni. Hún hefur skýrt okkur frá því hvert hún vilji stefna. Hún vill stefna að því að draga úr sköttum en auka notendagjöldin, auka þjónustugjöld. Hún gerir m.a. grein fyrir þessu í bæklingi sem var gefinn út af fjmrn. fyrir nokkru síðan og heitir Einkaframkvæmd.

Þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Leggja ber áherslu á að sem stærstur hluti tekna rekstraraðila sé fenginn með notendagjöldum sem aftur eru háð frammistöðu þess sem veitir þjónustuna með tilliti til gæða og verðs.``

Það stenst reyndar ekki. Síðari hluti þessarar setningar stenst ekki. Við þekkjum náttúrlega dæmið af Sóltúni og öðrum stofnunum og starfsemi sem ríkisstjórnin hefur einkavætt og búið miklu hagstæðari og betri kjör en öllum öðrum aðilum sem sinna samsvarandi starfsemi. Þar vitna ég til elliheimilanna svo dæmi sé tekið.

Hér kemur pólitík ríkisstjórnarinnar berlega í ljós. Ætlunin er, með öðrum orðum, að lækka skatta almennt, lækka skatta á fyrirtæki sérstaklega, þau sem hafa mestan hagnað, og að draga úr sköttum á einstaklinga. Þar er byrjað á þeim sem hafa hæstu tekjurnar en ekki hinum sem búa við erfiðust kjörin. Síðan er hugmyndin að innheimta þessa peninga á annan hátt, í gegnum notendagjöld. Fyrsta dæmið um þetta núna á þessu hausti er að sjálfsögðu skólagjöldin í Háskóla Íslands. Þau eru hækkuð um 40%. Ég veit ekki hve mörg þúsund nemar í Háskóla Íslands hafa þegar undirritað mótmæli til að afþakka þessa afmælisgjöld til Háskóla Íslands frá ríkisstjórninni og hæstv. menntmrh. Birni Bjarnasyni. Það voru 2.000 búnir að undirrita þetta plagg síðast þegar ég frétti. Eflaust er hópurinn orðinn miklu stærri. Þetta er pólitíkin sem við erum að ræða um. Um það og nákvæmlega þetta fjalla þær skattkerfisbreytingar sem hér eru til umfjöllunar.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta að sinni en ég lýsi andstöðu við þennan pakka þegar á heildina er litið. Ég get hins vegar tekið undir sitt hvað í þessum skattatillögum og sumu fagna ég. Ég fagna því að réttur sé hlutur þeirra sem eru á húsaleigumarkaði. Þeir hafa búið við önnur og lakari kjör en þeir sem eru að afla eignarhúsnæðis. Mér finnst eðlilegt að þarna sé meira jafnræði á milli, ekki síst í ljósi þess að tekjulægri hluti samfélagsins þarf að leita út á húsaleigumarkaðinn.

Ég get líka tekið undir aðra þætti þótt ég áskilji mér rétt til að skoða það nánar. Þar vísa ég t.d. í að fríeignamörk í eignarskatti einstaklinga skuli vera hækkuð. Mér finnst mjög mikilvægt að fullorðið fólk sé ekki hrakið út úr íbúðum sínum og húsum vegna mikillar skattlagningar. Ég hef vakið máls á þessu í blaðaskrifum að undanförnu í tengslum við breytt fasteignamat og skattlagningu sem því tengist.

En ég vil sérstaklega vara við teimur meginþáttum, þ.e. þeirri aðferðafræði sem almennt er beitt gagnvart atvinnulífinu, gagnvart fyrirtækjum í landinu, að tekjuskatturinn skuli lækkaður en skattlagning sem tengist launum hækkuð. Ég tel þetta sérstaklega varasamt í ljósi þeirra aðstæðna sem nú eru uppi í þjóðfélaginu. Þegar kreppir að mörgum fyrirtækjum vegna óhóflegs fjármagnskostnaðar og vegna erfiðari skilyrða en fyrirtækin hafa búið við um nokkurt skeið þá finnst mér mjög óráðlegt að fara þessa leið. Þetta er annar meginþátturinn sem ég vil gagnrýna í þessum skattatillögum.

Hinn meginþátturinn er sá að menn skuli ætla sér að hreyfa við hátekjuskattsmörkunum eins og gert er án þess að breyta persónuafslættinum, án þess að breyta skattleysismörkunum. Ég hefði talið eðlilegra að byrja á þeim enda. Verið er að létta sérstaklega sköttum af millitekjuhópum og hátekjufólki. Ég veit ekki hve stórt hlutfall greiðir þennan hátekjuskatt, en það er sá hluti þjóðfélagsins sem býr við skást kjörin. En á sama tíma er skilinn eftir sá hópur sem síst skyldi og ætla ég að enda mína ræðu á því að vekja enn á ný athygli á þeim kröfum sem fram hafa verið settar af Öryrkjabandalagi Íslands sem lýsir furðu yfir því að öryrkjum sé gert að búa við lögskipaða fjárhagsneyð.