Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Þriðjudaginn 09. október 2001, kl. 15:30:09 (282)

2001-10-09 15:30:09# 127. lþ. 6.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv., ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 127. lþ.

[15:30]

Ólafur Örn Haraldsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, menn sýna skjót viðbrögð. Að sjálfsögðu hljóta aðrir en atvinnulífið einnig að sýna viðbrögð eins og fram hefur komið.

Ég tel hins vegar að þegar þessir aðilar fara að kynna sér frv. betur og koma fram með sínar ábendingar, sem e.t.v. verða til einhverra breytinga, þá komist menn að þeirri niðurstöðu, sem ég tel vera rétta, að málið verði til hagsbóta fyrir þá sem í ASÍ eru og sömuleiðis Öryrkjabandalagið.

Ef ég má taka upp það sem fulltrúar flokkanna hafa átt hér orðaskipti um þá skilur þar í milli okkar og vinstri grænna að við í Framsfl. leggjum fyrst og fremst áherslu á að í landinu sé heilbrigt atvinnulíf, heilbrigð fyrirtæki sem veiti næga atvinnu og greiði skatta og skyldur ásamt þeim sem vinnuna hafa þannig að hægt sé að veita peninga inn í velferðarkerfið. Dæmin sína það og sanna, hver maður getur séð það, jafnvel á tímum samdráttar eins og verið hefur núna í hagsveiflunni. Okkur hefur tekist að leggja meira fram til velferðarmálanna, m.a. til heilbrigðismála og til öryrkja. Það tel ég sanna þá meginkenningu sem ég hef sett fram í máli mínu ásamt fleirum.