Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Þriðjudaginn 09. október 2001, kl. 15:42:50 (291)

2001-10-09 15:42:50# 127. lþ. 6.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv., ÖHJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 127. lþ.

[15:42]

Örlygur Hnefill Jónsson (andsvar):

Herra forseti. Því miður virðist hv. 12. þm. hafa misskilið hrapallega þá spurningu sem ég var hér að setja fram. Ég var ekki að tala um að koma upp mismunandi skattkerfi á milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis. Ég var að benda honum á að í þessu annars ágæta frv. gæti verið fólgin mismunun með tryggingagjaldinu, að hækkun á tryggingagjaldi komi mikið þyngra niður á landsbyggðarfyrirtækin heldur en þau í höfuðborginni. Það var það sem ég var að tala um, að gætt yrði að því og litið til þessa. (Gripið fram í: Breytingu á tryggingagjaldi?) Nei, hv. þm., ég er að tala um, eins og hv. formaður Samfylkingarinnar hefur bent á, að þessi hækkun á tryggingagjaldi kæmi þyngra niður á landsbyggðarfyrirtækjum en á fyrirtækjum á höfuðborgarsvæðinu og hvort það þyrfti ekki að jafna það og huga að því við meðferð þessa frv. Ég var alls ekki að biðja um mismunandi skattlagningu þegna landsins.