Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Þriðjudaginn 09. október 2001, kl. 15:59:34 (294)

2001-10-09 15:59:34# 127. lþ. 6.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 127. lþ.

[15:59]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Pétur H. Blöndal vill helst enga skatta. Þetta eru gamlir frjálshyggjudraumar eða draumórar sem við höfum heyrt frá postulum nýfrjálshyggjunnar, Friedman, Hayek og Buchanan, þeim mönnum sem hafa boðað afnám skatta, vilja að fólk borgi bara við aðaldyrnar á Landspítalanum, hjá Dvalarheimili aldraðra sjómanna, Hagaskólanum eða í háskólanum, því að sjálfsögðu á þessi þjónusta að vera við lýði. Það á að greiða fyrir hana með öðrum hætti. Þótt það leiði til mismununar virðist hv. þm. ekki hafa minnstu áhyggjur af því.

Hv. þm. talar um stórauknar kauphækkanir og kaupmáttaraukningu á liðnum árum. Því miður hefur hún ekki verið nægileg hjá ýmsum stéttum. Ég vil spyrja hv. þm. Pétur H. Blöndal hvort honum finnist boðlegt að bjóða sjúkraliðum t.d. sem heyja harða verkfallsbaráttu og kjarabaráttu innan við 90 þús. kr. í byrjunarlaun. Annað sem ég vildi inna hv. þm. eftir varðandi góðærið sem hann gumaði hér af, er hvort hann hafi ekki af því áhyggjur að það kunni að hafa verið reist á sandi nú þegar í ljós kemur að íslenska þjóðin skuldar meira en 2 þúsund milljarða kr., að skuldir íslensku þjóðarinnar skuli núna hafa náð því hámarki að vera 259% sem hlutfall af vergri landsframleiðslu og hefur aldrei verið hærra.