Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Þriðjudaginn 09. október 2001, kl. 16:03:12 (296)

2001-10-09 16:03:12# 127. lþ. 6.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 127. lþ.

[16:03]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Pétur H. Blöndal segist ekki þekkja launakjör sjúkraliða. Ég get upplýst hann um það að byrjunarlaun eru innan við 90 þús. kr. Hv. þm. hefur leyft sér að alhæfa og fullyrða um launakjör sjúkraliða sem annarra starfsmanna ríkisins og launafólks á markaði. Hann leyfir sér líka að senda íslenskum lífeyrisþegum kaldar kveðjur þegar hann harmar það að kjör þeirra skuli hafa batnað á liðnum árum. Þetta finnst mér vera kaldar kveðjur.

Ég vil spyrja hv. þm. þegar hann talar um skynsemi og væntanlega þá einnig réttlætið í skattlagningunni. Finnst honum skynsamlegt og réttlátt að á sama tíma og tekjumörk hátekjuskatts eru hækkuð í 331 þús. kr. á mánuði, þá skuli öryrkinn skilinn eftir á köldum klaka? Finnst honum það skynsamlegt og finnst honum það réttlátt eða rúmast það hugtak ekki í málflutningi hv. þm.?