Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Þriðjudaginn 09. október 2001, kl. 16:07:30 (299)

2001-10-09 16:07:30# 127. lþ. 6.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 127. lþ.

[16:07]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Einstæð móðir með þrjú börn og 32 þús. kr. leigu fær um 16.000 kr. í húsaleigubætur. Þær bætur voru á sínum tíma ákveðnar vegna þess að þær voru skattaðar. Þær voru ákveðnar svona hátt af því að þær voru skattaðar. Þær hefðu verið ákveðnar lægri ef þær væru skattfrjálsar. Þannig var það ákveðið með vaxtabæturnar. Það var vitað fyrir fram að þær voru skattfrjálsar og þar af leiðandi voru þær ákveðnar lægri en ella. (Gripið fram í.) Nei, vaxtabæturnar sem eru alltaf bornar saman við húsaleigubæturnar eru skattfrjálsar en þær voru ákveðnar lægri vegna þess að þær eru skattfrjálsar. Menn geta að sjálfsögðu haft bætur skattskyldar og haft þær hærri sem nemur skattinum og það breytir ekki neinu.

Hv. þm. gat ekki setið á sér af því að hann var orðinn reiður, að tala um meint ummæli mín um óreglu örorkulífeyrisþega sem er ekki rétt. Ég sagði þetta aldrei, herra forseti, og ég er búinn að bera það af mér og hv. þm. getur ekki sannað þetta. En hann heldur áfram að tuðast á þessu og tönnlast á því vegna þess að það hentar honum í umræðunni. Hann hefur ekki önnur rök.