Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Þriðjudaginn 09. október 2001, kl. 16:08:44 (300)

2001-10-09 16:08:44# 127. lþ. 6.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 127. lþ.

[16:08]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Ég hef áður sagt það og ég hef áður lesið upp úr þeim fréttaþætti sem hv. þm. tók þátt í þar sem hann talaði um óreglu hjá ellilífeyrisþegum og örorkulífeyrisþegum sem væri meginástæða vandræða þeirra. Það er ekki það að ellilífeyrisþegi sem fær 65 þús. kr. í bætur á mánuði borgar 5.400 kr. í skatt. Það er ekki það. Það er ekki það að húsaleigubæturnar sem ég er með á launaseðli og get leyft hv. þm. að sjá, að sú einstæða móðir sem fær 7.750 kr. í húsaleigubætur á mánuði er að borga 3.004 kr. í skatt á mánuði. Þetta er hér svart á hvítu. Það er langbest að taka svona dæmi, enda held ég að hv. þm. hafi tekið fullt af dæmum í skattamálaumræðu sinni hér á undan.

Herra forseti. Ég ítreka það og segi: Það er rétt að ég verð frekar vondur fyrir hönd þeirra ellilífeyrisþega sem hafa byggt þetta þjóðfélag upp þegar ég heyri hv. þm. tala með slíkri lítilsvirðingu um tryggingabætur og annað eins og hann gerir hér oft og títt á Alþingi.