Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Þriðjudaginn 09. október 2001, kl. 16:09:55 (301)

2001-10-09 16:09:55# 127. lþ. 6.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 127. lþ.

[16:09]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég verð aftur að endurtaka að bæturnar eru ákveðnar í upphafi með það í huga að þær séu skattskyldar hjá þeim sem borga skatt. (KLM: Eru þær þá of háar?) Get ég fengið ræðufrið?

(Forseti (GuðjG): Hv. þm. Pétur Blöndal hefur orðið og það er einlæg ósk forseta að hann fái að nota þessa einu mínútu truflunarlaust.)

Bæturnar eru ákveðnar þannig að tekið er tillit til þess að þær séu skattskyldar og það er líka réttlátt vegna þess að það fólk, þeir örfáu sem eru undir skattleysismörkum fá þá bæturnar óskertar. Þannig að skattfrelsi þessara bóta er félagslega óréttlátt vegna þess að fólk sem borgar engan skatt hvort sem er nýtur þess ekki, en þeir sem borga skatt og jafnvel fólk sem er með dágóðar tekjur eins og ég nefndi hérna áðan, fær þær skattfrjálsar, óskertar og það finnst mér óréttlátt. Að einstaklingur sem þarf bara að sjá fyrir sjálfum sér og er með 133 þús. kr. á mánuði skuli fá óskertar bætur og þurfi ekki að borga af þeim tekjuskatt eins og öðrum tekjum sem hann hefur, það finnst mér óréttlátt. En þetta er það sem menn vilja og þetta er það sem menn hafa ákveðið að láta yfir sig ganga.