Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Þriðjudaginn 09. október 2001, kl. 16:13:30 (303)

2001-10-09 16:13:30# 127. lþ. 6.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 127. lþ.

[16:13]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. ræddi ákveðið vandamál sem eru skattsvik þar sem menn nota sér skattkerfið til að losna undan sköttum og það er svo sem þekkt. Bótasvik eru einnig þekkt þar sem menn eru að ná sér í bætur sem ekki eiga rétt á því. Þetta er vandamál sem við höfum við að glíma og við höfum sett í lagasetninguna mjög ítarlega bálka til að koma í veg fyrir skattsvik af þessum toga.

En auðvitað vex hvatinn við þessa aðgerð og því miður gleymdi ég að koma inn á það atriði, en ég hef að sjálfsögðu hugleitt það að sá hvati vex. Áður var það þannig að ef menn höfðu 100 kr. í tekjur frá fyrirtæki, borguðu þeir 30 kr. í tekjuskatt, þá voru 70 kr. eftir. Ef þeir borguðu það út sem arð, borguðu þeir 7 kr. í fjármagnstekjuskatt og borguðu sem sagt í heildina 37 kr. af hundraðkallinum, þannig að það var mjög ámóta og sá tekjuskattur sem lagður er á einstaklinga og borgaði sig ekki að fara út í þessar æfingar nema vegna alls konar tekjutenginga barnabóta, vaxtabóta o.s.frv. En núna verður hvatinn enn frekari og það leiðir til þess að menn fara að sjálfsögðu að hugleiða hvort ekki eigi að lækka tekjuskatt einstaklinga líka. Það hefur ekki mátt gera að hingað til vegna þess að það er alltaf sagt að nú sé þensla og það muni auka þensluna að lækka tekjuskatt einstaklinga. En það má vel vera að við lendum í þeirri stöðu að við getum lækkað tekjuskatt einstaklinga og þá legg ég til að það verði gert.

Hvað varðar tryggingagjaldið, þá sagði ég að fyrirtæki sem er með 130 manns þurfi að spara einn mann á næstu tveim árum eða næsta ári til þess að standa jafnt með tryggingagjaldið eftir sem áður. Mér þykir leitt að heyra ef hv. þm. heldur því fram að fyrirtæki úti á landi séu ekki með hagnað. Það er mjög dapurlegt og því þarf að kippa í liðinn. Fyrirtæki eiga alls staðar að skila hagnaði jafnt á höfuðborgarsvæðinu sem úti á landi.