Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Þriðjudaginn 09. október 2001, kl. 17:15:16 (310)

2001-10-09 17:15:16# 127. lþ. 6.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv., EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 127. lþ.

[17:15]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. fyrir að hafa tekið undir með mér varðandi erfðafjárskattinn og stimpilgjaldið og í raun að hluta til tryggingagjaldið. Það sem ég var fyrst og fremst að gera, hv. þm., var að bera saman hvernig þessir tveir þættir kæmu fram gagnvart fyrirtækjum og var fyrst og fremst að vara við að þarna gætu menn verið að stíga óþarflega langt í hækkun tryggingagjaldsins. Mér heyrist að hv. þm. sé í raun á þeirri línu að jafnvel lækka tryggingagjaldið en ekki hækka það.

Ég var fyrst og fremst að vara við að þetta geti þar af leiðandi verið þessum fyrirtækjum m.a. svo íþyngjandi að þau kæmust ekki úr þessum byrjunarsporum sínum. Vonandi er það rétt hjá hv. þm., sem ég veit að þekkir býsna vel til í fyrirtækjaheiminum og ég tala ekki um í heimi fjárfesta, að þessi breyting verði til þess að menn vilji frekar fjárfesta í þessum fyrirtækjum. En ég er sannfærður um að það mundi enn auka vilja þeirra til þess að fjárfesta í þessum fyrirtækjum ef tryggingagjaldið væri ekki hækkað, ég tala nú ekki um hækkað svona mikið, vegna þess að það mun þá að sjálfsögðu auðvelda þessum fyrirtækjum fyrstu skrefin áður en þau fara að skila hagnaði vegna þess að tryggingagjaldið, eins og hv. þm. þekkir býsna vel, tekur ekkert mið af því hvernig hagnaðurinn verður að öðru leyti en því að því meiri sem hagnaðurinn er þá gerum við ráð fyrir að því fleiri starfsmenn gætu hugsanlega unnið hjá fyrirtækinu og þar af leiðandi þyrftu menn að borga enn hærra tryggingagjald.

Herra forseti. Mér sýnist við hv. þm. vera að mestu leyti sammála um þá þætti sem hér eru ræddir. En hann vil að sjálfsögðu ganga miklum mun lengra en ég í því að lækka ýmsa skatta af ýmsum gerðum, ég tala nú ekki um á fyrirtækjum, en ég held að við séum sammála um að við viljum auðvitað tryggja fyrirtæki í nýsköpun sem allra best hin fyrstu ár þegar þau eru að stíga sín fyrstu skref.