Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Þriðjudaginn 09. október 2001, kl. 17:17:12 (311)

2001-10-09 17:17:12# 127. lþ. 6.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 127. lþ.

[17:17]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Þegar menn ákveða að ráðast í nýsköpun, stofna nýtt fyrirtæki, reikna þeir með því að tekjur verði hærri en gjöld í framtíðinni, að þeir hafi af því hag, hagnað. Það þýðir að menn reikna með því að launakostnaður og annar kostnaður í fyrirtækinu verði langt undir tekjunum þannig að þessi litla hækkun á tryggingagjaldi sem svarar til þess að sparaður sé einn maður af 130 manns --- af 130 manns þarf einn að spara -- vegur miklu skemmra en lækkun á tekjuskattinum sem eykur hagnaðarvon manna miklu meira en þetta. Ég hugsa því að þessi breyting í heild sinni eigi að leiða til þess að menn verði fúsari til að leggja fé í nýsköpun en leiði einnig til þess að menn hugi betur að launakostnaði og reyni að spara í mannskap. Það er líka jákvætt. Ég sé ekki annað en við getum verið sammála um það hvort tveggja.

Varðandi það að lækka skatta almennt þá er ég hlynntur því. En að sjálfsögðu vil ég ekki fella þá niður því að þá hefði ég enga peninga til að reka velferðarkerfið fyrir. Það má vel vera að við séum komnir yfir mörkin í mörgum sköttum þannig að lækkun á sköttum þýði hækkun á tekjum ríkissjóðs nákvæmlega eins og gerðist þegar fjármagnstekjuskatturinn af sölu hlutafjár var lækkaður. Þá stórjukust tekjur ríkissjóðs þó að skatturinn lækkaði úr 48% niður í 10%.