Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Þriðjudaginn 09. október 2001, kl. 17:48:20 (315)

2001-10-09 17:48:20# 127. lþ. 6.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 127. lþ.

[17:48]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Ég vildi aðeins spyrja annan fulltrúa Framsfl. sem tekur þátt í þessari umræðu í dag. Honum var tíðrætt um að þessar skattalagabreytingar væru m.a. til að gera fyrirtækjum mögulegt að flytja erlendis frá til Íslands sem sannarlega er rétt og vonandi verður til að þetta gerist. Ég fagna þessu, er hlynntur þessu. Ég held að þetta sé hið besta mál.

Á þingum áður á meðan Framsfl. var í stjórnarandstöðu fluttu nokkrir þingmenn Framsfl. oft tillögur um að breyta sköttum til hagsbóta fyrir fyrirtæki á landsbyggðinni. Þess vegna vil ég spyrja hv. þm. Ísólf Gylfa Pálmason út í það hvort Framsfl. væri ekki tilbúinn að skoða það mál að nota skattkerfið til þess að jafna rekstrarskilyrði fyrirtækja milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar. Þar tek ég dæmi af tryggingagjaldinu. Við þekkjum það að í Noregi hefur tryggingagjaldið í mörg ár verið misjafnt eftir því hvort fyrirtæki er rekið í Ósló eða í Norður-Noregi. Þetta hafa framsóknarmenn oft verið með, þó kannski sérstaklega þegar þeir voru í stjórnarandstöðu. Hver er skoðun framsóknarmanna nú á því að nota skattkerfið til þess að jafna aðstöðumun og rekstrarskilyrði fyrirtækja milli höfuðborgar og landsbyggðar? Einnig má minna á hvernig þungaskattinum hefur verið breytt í tíð núv. hæstv. ríkisstjórnar sem gerir það að verkum að flutningur á lengstu leiðum, t.d. frá höfuðborgarsvæði austur á land, hefur hækkað um allt að 40% í tíð núv. ríkisstjórnar.