Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Þriðjudaginn 09. október 2001, kl. 18:15:10 (320)

2001-10-09 18:15:10# 127. lþ. 6.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv., GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 127. lþ.

[18:15]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Ég fagna mjög þessu frv. sem hér er til umræðu. Ég fagna því að nú þegar við höfum ár eftir ár rekið ríkissjóð með miklum afgangi, greitt niður skuldir ríkisins og náð góðum tökum á efnahagsmálunum þá skuli þjóðin fá að njóta þess í lækkuðum sköttum. Ef maður horfir langt aftur í tímann þá hefur það yfirleitt verið á þann veg hér á Alþingi að Alþingi hefur verið að hækka skatta en ekki lækka og skattalækkanir eru fremur fátíðar.

Á þessu hefur að vísu orðið veruleg breyting í tíð tveggja ríkisstjórna Sjálfstfl. og Framsfl. Ég minni hér á nokkrar þeirra skattalækkana sem ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir á undanförnum árum og minni þá náttúrlega fyrst og enn einu sinni á þá miklu lækkun sem gerð var á tekjuskattinum á síðasta kjörtímabili þegar hann var lækkaður um fjögur prósentustig í þremur áföngum. Það er einhver mesta skattalækkun sem um getur og var stórkostleg kjarabót fyrir almenning í landinu og á sjálfsagt stærstan þátt í því að kaupmáttur hefur aukist hér meira á undanförnum árum en í nokkru öðru landi. Og tekjuskatturinn lækkar enn um næstu áramót.

Ég minni líka á að skattafsláttur hjóna er nú að verða að fullu millifæranlegur. Stefnt er að því í fjórum áföngum og þriðji áfangi kemst í gagnið á næsta ári. Ég tel að það sé mikið réttlætismál ekki síst fyrir heimavinnandi fólk, t.d. fólk sem er bundið yfir börnum og kemst ekki á vinnumarkaðinn og hinn aðilinn í hjónabandinu vinnur mikið. Þá er auðvitað réttlætismál að hann geti nýtt að fullu skattkort makans.

Ég minni á breytingu á fasteignamati sem stórlækkaði fasteignagjöldin á landsbyggðinni og er gríðarlegt hagsmunamál fyrir fólk og fyrirtæki á landsbyggðinni.

Og þó það séu kannski ekki beint skattalækkanir þá má minna á stórátök sem gerð hafa verið til hagsbóta fyrir sérstaklega yngra fólk. Ég minni á fæðingarorlofið sem var stóraukið og barnabætur sem einnig eru stórauknar, eða um 2 milljarða á þremur árum.

Þessu til viðbótar er í frv. sem við ræðum núna m.a. lögð til 50% lækkun á eignarskatti, helmingslækkun, og auk þess hækkun fríeignamarks í eignarskattinum. Mér finnst þetta alveg sérstakt réttlætismál vegna þess að mér hefur lengi fundist eignarskatturinn allra skatta óréttlátastur. Það er nú svo að eignir manna verða yfirleitt til vegna tekna sem einstaklingarnir hafa borgað skatta af áður. Hef ég alltaf litið á eignarskattinn sem nokkurs konar tvísköttun.

Það er rétt sem kom fram í máli hv. þm. Péturs H. Blöndals að eignarskattur, hár eignarskattur, er líka hemill á sparnað. Eignarskatturinn er líka gríðarlega óréttlátur, finnst mér, gagnvart íbúðareigendum. Það er út í hött að þó að fólk eigi sæmilega íbúð þá skuli það þurfa að borga skatt af eigninni. Þetta bitnar sérstaklega þungt á eldra fólki sem býr í sínum íbúðum sem það kannski hefur búið í í áratugi og hefur enga burði til að borga skatta af þessum eignum. Þess vegna finnst mér sérstakt fagnaðarefni að nú skuli eiga að lækka eignarskattinn um helming og ég tel að við eigum að stefna að því að fella hann alveg niður.

Það er einnig ánægjuefni að þjóðarbókhlöðuskatturinn skuli nú aflagður. Það er nú svo með þessa sérstöku skatta sem stundum hafa verið settir á út af einhverju ákveðnu verkefni að þeir hafa orðið ansi lífseigir og gengið illa að koma þeim fyrir kattarnef. En nú er loksins stefnt að því að þjóðarbókhlöðuskatturinn leggist af.

Menn hafa deilt hér nokkuð um sérstaka eignarskattinn sem stundum er kallaður hátekjuskattur. Nú er frítekjumarkið hækkað þannig að það fer úr 280 þús. í eitthvað um 322 þús. Mér finnst þetta réttlætismál. Mér finnst 280 þús. kr. ekki vera hátekjur. Þetta bitnar mjög hart á sérstaklega ungu fólki sem er að koma sér þaki yfir höfuðið, koma sér fyrir í lífinu og vinnur mikið, leggur mikið á sig til að geta eignast eitthvað, en það lendir í sérstökum hátekjuskatti ef það fer yfir 280 þús. kr. í tekjur. Ég hefði reyndar talið að þetta frítekjumark ætti að hækka meira. En þetta er góður áfangi og það verður hækkað aftur á næsta ári á eftir. Þetta bitnar líka illa t.d. á sjómönnum sem eru mikið fjarverandi í löngum túrum. Menn á frystitogurum og öðrum slíkum skipum hafa oft allgóðar tekjur og mér finnst ekki sanngjarnt að skattleggja þetta fólk eitthvað sérstaklega fyrir að vinna mikið og leggja mikið á sig.

Lagðar eru til verulegar skattalækkanir á fyrirtækin í landinu. Það er enginn vafi á því að þær lækkanir munu styrkja samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja og skapa forsendur fyrir frekari uppbyggingu þeirra. Það er einfaldlega reynsla okkar af skattalækkunum á fyrirtækin í upphafi síðasta áratugar. Iðnn. þingsins var, eins og nefnt var áðan af hv. þm. Ísólfi Gylfa Pálmasyni, í heimsókn á Grundartanga í gær og átti þar viðræður við forsvarsmenn stóriðjufyrirtækjanna þar. Forsvarsmenn Norðuráls voru m.a. spurðir að því hvaða áhrif þeir teldu að þessar skattalækkanir mundu hafa á þeirra fyrirtæki ef af yrði. Þeir töldu að það mundi auka áhuga þeirra á fjárfestingu á Íslandi og gera þá enn ákveðnari í að fjárfesta frekar á Grundartanga, sem ég tel að sé mikið hagsmunamál bæði fyrir svæðið og fyrir landið allt. Þarna er stefnt að mikilli stækkun og fjölgun starfa upp á 300--400 manns í verksmiðjunni og þjónustu við hana, auk þess sem við þetta mun útflutningsverðmæti frá verksmiðjunni aukast um 25 milljarða kr. á ári. Þessir menn lýstu því sem sagt yfir að þessi skattbreyting, ef af yrði, mundi auka enn áhuga þeirra á að fjárfesta meira á Íslandi.

Það hefur verið nokkuð athyglisvert að fylgjast með umræðum hér í dag. Stjórnarandstaðan hefur reynt að gera þetta allt heldur tortryggilegt, m.a. nefndi hv. þm. Sverrir Hermannsson það að ríkisstjórnin hefði misst tökin á fjármálum og efnahagsmálum þjóðarinnar og að nú væri stóraukin hækkun á fjárlögum milli ára. Ég gat nú ekki annað en brosað út í annað þegar ég hlustaði á þetta og rifjaði upp um leið tillögu Frjálslynda flokksins við fjárlagagerðina í fyrra þegar þeir lögðu til hækkun á ríkisútgjöldum upp á nokkra milljarða. Og svo tala menn svona.

Hv. þm. Samfylkingarinnar hafa nefnt það hér nokkuð margir að hækkun tryggingagjaldsins komi verst við landsbyggðina. Mér finnst menn með þessu tala dálítið niður til landsbyggðarinnar. Landsbyggðin er ekkert annars flokks. Það er nú þannig að á landsbyggðinni eru stöndug fyrirtæki og þar eru líka veikburða fyrirtæki. Á höfuðborgarsvæðinu eru líka stöndug fyrirtæki og þar eru líka veikburða fyrirtæki. Á landsbyggðinni eru bæði vel og illa rekin fyrirtæki. Á höfuðborgarsvæðinu eru líka bæði vel og illa rekin fyrirtæki. Menn mega ekki alltaf tala um landsbyggðina eins og hún sé annars flokks. Ég er ósammála því.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir nefndi að þessar skattbreytingar muni fyrst og fremst gagnast stórfyrirtækjunum og stóreignamönnum. Mér finnst þetta nú svona ákveðnir öfgar. Auðvitað gagnast þetta hinum almenna launamanni. Það gagnast ekki síst íbúðareigendum þegar eignarskatturinn stórlækkar. Það gagnast ungu fólki sem vinnur mikið, eins og ég nefndi hér áðan, og þénar sæmilega að frítekjumarkið í sérstaka eignarskattinum skuli hækkað. Það eru ekki neinir stóreignamenn sem eiga venjulega íbúð og þéna kannski eitthvað yfir 300 þús. á mánuði. Þetta eru bara ósköp venjulegir Íslendingar.

Það gagnast þeim sem verr eru staddir að skattur á húsaleigubótunum skuli afnuminn. Sem betur fer kemur þetta því flestum að gagni þó auðvitað, eins og hér hefur verið nefnt, séu alltaf einhverjir sem ekki njóta þess sem verið er að gera.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir nefndi líka að 10% skattur af fjármagnstekjum á Íslandi væri lægri en nokkurs staðar annars staðar. Og ég segi nú bara: Guði sé lof. Eftir að hafa hlýtt á ræðu hv. þm. vitum við á hverju við eigum von ef Samfylkingin kemst til valda. Þá verður þessi skattur væntanlega hækkaður sem mér finnst afleitt því hann er auðvitað ekki bara fyrir einhverja stóreignamenn eða braskara og bisnessmenn. Hann leggst á hinn almenna sparifjáreiganda í landinu sem greiðir verulegar upphæðir í þennan skatt. Mér finnst hann alveg nógu hár 10% og væri algjörlega andvígur því að hækka hann.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði að skattapakkinn hefði verið fyrirsjáanlegur því að Sjálfstfl. væri við völd í hægri stjórn. Ég er alveg sammála hv. þm. í því. Þetta var fyrirsjáanlegt. Sjálfstfl. hefur boðað það leynt og ljóst að hann vildi minnka skattheimtuna á landsmönnum og hér er einfaldlega verið að standa við það sem flokkurinn hefur sagt. Það er verið að standa við fyrirheit um skattalækkanir.

Þessu er öfugt farið með vinstri flokkana. Menn hafa þar einfaldlega aðrar áherslur. Ég er hérna með fyrir framan mig hluta af þeim brtt. sem stjórnarandstaðan lagði til við fjárlagagerðina í fyrra og, með leyfi forseta, langar mig að vitna í fyrsta lagi í brtt. Samfylkingarinnar sem lagði til að tekjuskattur einstaklinga og staðgreiðsla yrði hækkuð um 3 milljarða og 350 millj., 3.350 milljónir. kr.

Samfylkingin lagði líka til að tekjuskattur lögaðila yrði hækkaður um 250 millj. kr., virðisaukaskattur um 350 millj. kr. og vörugjald af innfluttum ökutækjum um 150 millj. kr., og þessu til viðbótar svo að innheimta 2.700 kr. gjald á hverja þorskígildislest af úthlutuðu aflamarki, sem átti að gefa eitthvað um 750 millj. kr.

Ég er einnig með brtt. frá Vinstri grænum fyrir framan mig. Með leyfi forseta, þá lögðu þeir til að sérstakur tekjuskattur, þ.e. hátekjuskatturinn sem ég hef nefnt í ræðu minni, yrði hækkaður um 300 millj. kr., skattur á fjármagnstekjur hækkaður um 800 millj. kr., sem væntanlega hefði þá þýtt að prósentan yrði hækkuð, tekjuskattur lögaðila hækkaður um 1.200 millj. kr., áfengisgjald hækkað um 300 millj. kr. og hagnaður af einkasölu hækkaður um 400 millj. kr.

Eitthvað fleira held ég hafi nú komið fram af skattahækkunartillögum við fjárlagaumræðuna í fyrra. Ef ég man rétt voru Frjálslyndi flokkurinn og Vinstri grænir með sameiginlega brtt. upp á einhverja tvo eða þrjá milljarða þannig að þetta sýnir bara muninn á áherslum Sjálfstfl. og vinstri flokkanna. Við höfum boðað og viljum lækka skatta. Vinstri menn kunna alltaf það ráð helst að hækka skatta. Þar liggur munurinn.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa lengra mál um frv. að sinni. Ég ítreka ánægju mína með að frv. skuli vera komið fram og vona að það fái greiða leið í gegnum þingið.