Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Þriðjudaginn 09. október 2001, kl. 18:28:24 (321)

2001-10-09 18:28:24# 127. lþ. 6.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 127. lþ.

[18:28]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. tíndi til nokkur dæmi um afrek ríkisstjórnarinnar og nefndi þar fyrst lækkun á tekjuskatti einstaklinga, að skatturinn hefði verið færður verulega niður á undangengnum árum. Það er rétt. Um miðjan áratuginn eða upp úr miðjum áratug var skattprósentan komin í 42% tæp og er núna 38,37%. En er hv. þm. kunnugt um að fyrir tíu árum var skattprósentan 39,79% og á sama tíma hefur persónuafsláttur ekki fylgt launaþróun þannig að skattleysismörk hafa lækkað að raungildi? Þetta þýðir að skattlagning á einstaklinga hefur verið aukin á undangengnum árum.

Önnur skrautfjöðrin sem hv. þm. tíndi til voru barnabæturnar. Hann sagði að þær yrðu auknar um 2 milljarða kr. á næstu þremur árum. Er hv. þm. kunnugt um að barnabætur verða að þessum tíma liðnum jafnvel ívið lægri en þær voru að raungildi fyrir einum áratug?

Hv. þm. sagði að þjóðin fái notið þeirra skattkerfisbreytinga sem hér eru í vændum. Hefur hann ekki áhyggjur af því þegar skattbreytingarnar eru gaumgæfðar og í ljós kemur að um er að ræða 4,1 milljarð kr. í skattalækkunum á árinu 2003, að rúmlega helmingur, eða 2,7 milljarðar kr., ganga til þeirra fyrirtækja sem skila hagnaði? Finnst hv. þm. þessum breytingum réttlátlega skipt á meðal landsins þegna?