Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Þriðjudaginn 09. október 2001, kl. 18:33:04 (323)

2001-10-09 18:33:04# 127. lþ. 6.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 127. lþ.

[18:33]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Tilefni þess að ég rifjaði upp liðna tíð voru orð hv. þm. sjálfs, sem var að bera saman skattprósentuna nú og fyrir fáeinum árum. Ég fór nokkur ár lengra aftur í tímann til að sýna fram á að skattprósentan fyrir tíu árum er svipuð og hún er nú, en þó hafa skattleysismörk ekki fylgt launaþróun, þannig að álögur á almenning hafa verið auknar.

Á sama tíma eru menn nú að kynna skattkerfisbreytingar sem létta ekki álögum af láglaunafólki, fyrst og fremst af millitekjuhópum og hálaunafólki og síðan þeim fyrirtækjum sem skila hagnaði. Út á þetta hefur gagnrýni stjórnarandstöðunnar fyrst og fremst beinst í umræðunni í dag og ég mun gera nánar grein fyrir sjónarmiðum mínum hér á eftir. En gagnrýni mín gekk út á þau ummæli hv. þm. að þessar skattkerfisbreytingar gögnuðust þjóðinni allri.