Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Þriðjudaginn 09. október 2001, kl. 18:35:36 (325)

2001-10-09 18:35:36# 127. lþ. 6.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 127. lþ.

[18:35]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Sumt af því sem verið er að leggja til er ekki lækkun á sköttum heldur hækkun. Og sú hækkun er sett fram í því augnamiði að geta lækkað einhverja aðra skatta í staðinn. Hækkun á tryggingagjaldinu er stór hluti af þeirri skattalækkun sem er gerð möguleg. Mér finnst svolítið undarlegt af hv. þm. að tala um það eins og verið sé að niðurlægja landsbyggðina með því að benda á að þau fyrirtæki sem munu verða verst úti séu að töluvert miklu stærri hluta til á landsbyggðinni.

Það liggur fyrir í tölum að um helmingurinn af öllu tapi í atvinnurekstrinum er hjá landsbyggðarfyrirtækjum, en einungis um 15% af hagnaðinum. Þetta segir sína sögu vegna þess að landsbyggðin hefur fyrirtæki sem standa kannski að mörgu leyti ekki eins vel og almennt er á höfuðborgarsvæðinu.

Er rétta leiðin að skattleggja slík fyrirtæki og ganga nærri þeim? Er ekki nær að taka eitthvað af þeim hagnaði sem myndast heldur en að ganga á þau fyrirtæki sem ekki hafa náð hagnaði? Ég spyr.

Síðan vil ég nefna eitt af því hv. þm. talaði um að við vildum breyta fjármagnstekjuskattinum og hækka hann. Það er rétt. En við höfum ekki lagt til að fjármagnstekjuskattur verði hækkaður á fólki vegna almenns sparnaðar. Við höfum talað um að þegar menn eigi mikla peninga og hafi hagnað af fjármunum eigi að líta á það eins og aðrar tekjur. Það á að líta á það eins og atvinnurekstur. Það er orðinn atvinnurekstur þegar menn eru farnir að hafa verulegar tekjur af fjármunum og á ekki að líta öðruvísi á það.

Við lögðum til ýmsar hækkanir í fyrra. Það er alveg rétt. En við gerðum það til þess að fjármagna aukningu á útgjöldum sem við lögðum til.