Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Þriðjudaginn 09. október 2001, kl. 18:37:56 (326)

2001-10-09 18:37:56# 127. lþ. 6.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv., GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 127. lþ.

[18:37]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Herra forseti. Í öðru orðinu segir stjórnarandstaðan að skattalækkunin komi nánast öll fyrirtækjunum í landinu til góða. Í hinu orðinu býsnast hún yfir hækkun tryggingagjaldsins. Á hverjum lendir tryggingagjaldið aðallega? Skyldi það ekki vera á fyrirtækjunum en ekki einstaklingunum eða láglaunafólkinu?

Varðandi það að þetta lendi eitthvað þyngra á landsbyggðinni, það hefur ekkert verið sýnt fram á það með neinum rökum. Menn slá því fram að landsbyggðin fari eitthvað voðalega illa út úr þessu. Hv. þm. nefnir það að helmingurinn af tapinu sé á landsbyggðinni. Þá er væntanlega helmingurinn á höfuðborgarsvæðinu, ef ég kann að reikna. Tvisvar sinnum helmingur er einn heill.

Ég minni á það sem ég nefndi í ræðu minni áðan að stórkostleg breyting hefði verið gerð á fasteignamatinu í landinu sem kemur landsbyggðinni mjög til góða og lækkar fasteignaskattinn víða um land um helming, sem kemur bæði einstaklingunum og fyrirtækjunum úti á landi til góða. Það var auðvitað til stórkostlegra bóta fyrir fyrirtækin úti á landi, fyrirtæki sem bjuggu við það að þurfa að borga af einhverjum skemmum eins og þær stæðu á dýrasta stað í Reykjavík. Þessu hefur verið breytt og þetta er náttúrlega til gríðarlegra hagsbóta fyrir reksturinn á landsbyggðinni.

Varðandi hækkun fjármagnstekjuskattsins viðurkennir hv. þm. að Samfylkingin vilji hækka hann, eins og kom fram í ræðu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, sem ef ég veit rétt er einn helsti skattamálasérfræðingur Samfylkingarinnar og hefur setið um langt árabil í efh.- og viðskn. þingsins og verið einn helsti talsmaður Samfylkingarinnar. Og ég tek auðvitað mark á því sem hún segir. Hún var ekki með neinn fyrirvara um það að hún vildi breyta uppbyggingu skattsins. Hún sagði einfaldlega: Skatturinn er of lágur. 10% er of lágt. Hvergi í heiminum er borgað svona lágt og við þurfum að hækka það. Hv. þm. sagði síðan að eðlilegt hefði verið að þeir legðu til skattahækkanir í fyrra vegna þess að þeir lögðu til aukin ríkisútgjöld. Það er auðvitað alveg hárrétt og það er það sem ég hef verið að benda á og gagnrýna. Menn vilja tala í öðru orðinu um að ríkisstjórnin sé að missa tök á útgjöldum ríkisins. Í hinu orðinu leggja þeir til milljarðahækkanir á útgjöldum og skattahækkanir á móti.