Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Þriðjudaginn 09. október 2001, kl. 18:40:13 (327)

2001-10-09 18:40:13# 127. lþ. 6.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 127. lþ.

[18:40]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það eru til rök og mörg rök fyrir því að hækkun á tryggingagjaldinu muni leggjast meira á landsbyggðina. Tekjur fyrirtækjanna eru rúm 70% á höfuðborgarsvæðinu en tæp 30% á landsbyggðinni. Samt er tapið af fyrirtækjunum u.þ.b. helmingurinn, eða um 50% á hvorum stað. Það segir sína sögu um hvernig staðan almennt er hjá fyrirtækjunum og hvernig tryggingagjaldið muni þá koma niður.

Og ég endurtek: Það hefur komið fram og kom fram í umræðum frá okkar hendi í sambandi við fjármagnstekjuskatt að við vildum að rífleg mörk væru á því að fólk gæti átt sparnað og að lægri fjármagnstekjuskattur yrði á honum.

Mér finnst hins vegar ástæða til að nefna, vegna þess að hv. þm. er með miklar upptalningar um þau afrek sem ríkisstjórnin hefur verið að vinna og að hún hafi náð tökum á efnahagsmálunum, að við erum að stríða við gífurlegan viðskiptahalla, hæstu vexti sem fyrir finnast, skuldasöfnun meiri en aldrei fyrr og bullandi verðbólgu. Er það ástand sem hægt er að segja að eigi að vera?