Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Þriðjudaginn 09. október 2001, kl. 18:41:35 (328)

2001-10-09 18:41:35# 127. lþ. 6.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv., GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 127. lþ.

[18:41]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Herra forseti. Við getum vissulega karpað endalaust um tryggingagjaldið á landsbyggðinni, við fáum enga niðurstöðu í það hér í þessum ræðustóli í dag. Við erum einfaldlega ósammála og ég tel að hv. þm. hafi ekki sýnt fram á niðurstöðu með neinum rökum.

Ég minni enn og aftur á að fyrirtækin á landsbyggðinni fá alveg stórkostlega lækkun núna í fyrsta sinn vegna breytinganna á fasteignamatinu, sem auðvitað er alveg til gríðarlegra hagsbóta fyrir fyrirtækin í landinu og náttúrlega ekki síður fyrir fólkið sem býr úti á landi.

Hv. þm. er að bögglast með fjármagnstekjuskattinn. Það getur vel verið að þeir hafi haldið því fram í umræðum hér þegar hann var settur á að hann ætti að vera eitthvað öðruvísi. En ég ítreka það að helsti skattamálasérfræðingur Samfylkingarinnar, hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, sem hefur setið lengur í efh.- og viðskn. en nokkur krati í manna minnum, hafði engan fyrirvara á þessu. Eingöngu að hækka prósentuna, 10% væri allt of lágt og lægra en nokkurs staðar í heiminum og við skulum hækka það, sagði hv. þm.