Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Þriðjudaginn 09. október 2001, kl. 19:00:19 (334)

2001-10-09 19:00:19# 127. lþ. 6.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv., fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 127. lþ.

[19:00]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég vil þakka þingmönnum fyrir þær umræður sem orðið hafa í dag um þetta stóra og mikilvæga frv. um breyting á lögum um tekjuskatt og eignarskatt og fleiri lögum er tengjast skattamálum. Hér hefur eðlilega margt borið á góma eins og venjubundið er við umræður af þessu tagi og ýmsum sjónarmiðum verið hreyft sem eðlilegt er að þingnefndin skoði.

Meginatriði málsins er eftir sem áður að við núverandi aðstæður er mjög brýnt, að dómi þeirra sem að þessu frv. standa og það hafa samið, að gera þær umbætur í skattamálunum sem hérna eru lagðar til.

Ég verð að segja að það er býsna fróðlegt að fylgjast með málflutningi einstakra þingmanna. Sumir þingmenn hafa setið lengi á Alþingi og átt sér hér langa sögu. Ég er sjálfur í hópi þeirra sem hafa verið hér hvað lengst af núverandi þingmönnum og ég man vel eftir því þegar fyrir 12--13 árum var lagt fram annað frv. um tekjuskatt og eignarskatt af hálfu þáverandi ríkisstjórnar sem gekk pínulítið í aðra átt heldur en þetta frv. Tveir af ráðherrunum í þeirri ríkisstjórn sem þá sat hafa talað hér í dag, hæst. þáv. samgrh. og hæstv. þáv. félmrh. Mér heyrist að vísu, og ég vil taka það fram strax, að sjónarmið þeirra hafi í mörgum atriðum breyst og það hafa eflaust sjónarmið okkar allra á svona löngum tíma gert. En það er samt sem áður býsna forvitnilegt að rifja þetta upp og ég gerði mér það til gamans í dag meðan ég var að hlusta á umræðurnar að ég náði mér í þingskjölin frá þessum tíma, þar á meðal nál. sem ég lagði fram um þetta efni á þeim tíma. Það er býsna fróðlegt að sjá hvað menn voru þá að bauka við í þessum efnum, haustið 1988, miðað við það sem menn eru að gera núna. Þá voru menn að leggja til að hækka tekjuskatt fyrirtækja úr 48% upp í 50% svo eitthvað sé nefnt. Þá voru menn að hækka tekjuskattinn til ríkisins um ein tvö prósentustig í hinum almenna tekjuskatti einstaklinga. Þá voru menn að stórhækka eignarskattana þó að nú virðist það vera orðin býsna útbreidd hreyfing, sem betur fer, að sú stefna sé röng og það sem lagt er til í þessu frv. sé bæði réttmætt, eðlilegt og skynsamlegt, ekki síst að því er varðar skatta á íbúðarhúsnæði og eignarskatta fyrirtækja.

Þetta er til upprifjunar, herra forseti. Það er ástæðulaust að orðlengja mikið um þetta. En þetta var þá stefnan og menn börðust fyrir því með kjafti og klóm í sundurtættu stjórnarliði þess tíma að koma saman tillögum um þetta efni, hækka tekjuskatt fyrirtækja, hækka tekjuskatt einstaklinga, hækka eignarskatta einstaklinga og fyrirtækja þannig að virkilega munaði um. Hæsti eignarskatturinn eftir þessar breytingar gat farið upp í 2,95% þannig að hér hefur orðið mikil stefnubreyting sem betur fer og mikil ástæða er til að fagna því að ofstækisfullar hugmyndir af því tagi sem þá voru kynntar í þinginu eiga sér engan hljómgrunn lengur að því er ég tel og tel þessar umræður í dag reyndar hafa sýnt.

Það er líka ástæða til að fagna því að það virðist vera orðin almenn hreyfing til stuðnings því í þinginu að gerbreyta skatti eins og stimpilgjaldi og vinstri flokkarnir, ef eitthvað er, gagnrýna núverandi ríkisstjórn fyrir að vera ekki nógu snör í snúningum í þeim efnum og hafa ekki gengið nógu hratt fram í því að fella niður skatt sem gefur ríkinu 3,3 milljarða samkvæmt fjárlagafrv. næsta árs.

Það er alveg ljóst, eins og ég hef sagt um þetta mál, að ekki er hægt að gera allt fyrir alla í þessum efnum. Þess vegna verður stimpilgjaldið að bíða fram á árið 2003. Það mun koma í sérstöku frumvarpsformi á þessu þingi, vonandi fyrr en síðar. En það er ekki hægt að gera það strax vegna þess að við erum að forgangsraða þessu öðruvísi. Alveg eins og hv. þm. Guðjón Guðmundsson rakti mjög skilmerkilega áðan þá er búið að gera mjög marga aðra hluti á undanförnum missirum og árum í þessum skattamálum til þess að koma til móts við fjölmörg sjónarmið, þar á meðal sjónarmið barnafjölskyldnanna, bæði að því er varðar barnabætur og fæðingarorlof og fleira af því tagi. Við höfum rakið það hér í umræðum sem búið er að gera. Ég fór yfir það í framsöguræðu minni líka. Þetta verða menn að hafa í huga.

En nú er tímabært að fara í þær breytingar sem hérna er lagt til til þess að geta haldið áfram að byggja upp í framtíðinni og búa til meiri verðmæti sem koma síðan til skattlagningar. Þetta er grundvallarsjónarmiðið, grundvallarafstaða sem ég veit að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur ekki skrifað upp á en mér heyrist að Samfylkingin, í það minnsta að sumu leyti, geti tekið undir. En þess vegna eru menn í mismunandi stjórnmálaflokkum að þeir hafa ekki sömu sýn á þessa hluti og eins og ég sagði í framsögu minni þá geri ég enga kröfu ti þess að menn skrifi upp á þetta í öðrum stjórnmálaflokkum. Ríkisstjórnin hefur komið sér saman um þessa stefnu og átt um það mjög gott samstarf á milli flokkanna og við erum sannfærðir um að þetta mun skila okkur miklum árangri þegar fram í sækir og þess verður ekki langt að bíða að mínum dómi. Hér hafa því orðið miklar breytingar og ég heyri að eitt og annað í frv. á stuðning töluvert út fyrir stjórnarflokkana.

Ég hef sagt það áður, t.d. fyrr í dag, að ég hafi aldrei lagt fram frv. sem ekki megi gera neinar minnstu breytingar á. Þess vegna liggur alveg fyrir að nauðsynlegt er að fara í saumana á frv. Hitt er náttúrlega ljóst, og það er það sem hv. þm. Vilhjálmur Egilsson segir í DV, að meginstefna frv. liggur fyrir og við ætlum ekkert að hverfa frá henni hvað svo sem líður einstökum atriðum og einhverju því sem eflaust má betur fara. Ég dreg það ekkert í efa í svona flóknu og umfangsmiklu máli. En meginstefnan liggur fyrir og við munum ekki hverfa frá henni. Við hyggjumst lögfesta hana.

Herra forseti. Ég vil þá víkja örfáum orðum að nokkrum fyrirspurnum sem mér bárust. Það eru að vísu ekki allir fyrirspyrjendur hér við og ég mun þá kannski koma að því við betra tækifæri. En hv. þm. Einar Már Sigurðarson situr hér og hann beindi til mín nokkrum spurningum, t.d. varðandi erfðafjárskattinn og stimpilgjaldið og áhrif fasteignamatshækkunarinnar á þessu ári á þessa skatta. Um stimpilgjaldið er það að segja sem ég sagði áðan, að frv. er í smíðum um það mál. Það mun ekki koma til framkvæmda á næsta ári þannig að við gerum ekki ráð fyrir því að grípa til neinna sérstakra aðgerða vegna fasteignamatshækkunarinnar á stimpilgjaldi. Vel má vera að ríkissjóður hafi út úr því einhverjar 80 millj. eins og þingmaðurinn gat sér til um. Ég þori ekki að fullyrða um það. En ég ætla ekki að halda því fram að við ætlum að gefa þá peninga neitt sérstaklega eftir í þessum pakka.

Að því er varðar erfðafjárskattinn þá nefndi hann að þar gæti verið um að ræða 50 millj. kr. tekjuauka. Ég hef ekki sönnur á því en ég vil segja að erfðafjárskatturinn hefur nýlega verið fluttur úr félmrn. þar sem hann átti reyndar ekki heima eðli málsins samkvæmt. Hann var fluttur þaðan yfir í fjmrn. Við höfum síðan verið að endurskoða það kerfi í heild sinni og ég geri mér vonir um að geta flutt frv. um nýja skipan þeirra mála á þessu þingi. Það er ekki rétt að gera því skóna að í því felist miklar lækkanir frá því sem nú er, enda er erfðafjárskattur hér á landi lægri en víða í nálægum löndum. En þetta atriði sem þingmaðurinn nefndi mun að sjálfsögðu koma til athugunar í sambandi við þessa endurskoðun.

Síðan nefndi þingmaðurinn spurninguna um tekjurnar af tryggingagjaldinu. Ég tók eftir því að í þeim gögnum sem Alþýðusambandið sendi frá sér að þeir draga í efa að þarna sé um að ræða tekjur upp á 2,5 milljarða kr. heldur 3,3 og það er náttúrlega beinn framreikningur á áætlun fjárlagafrv. Sú tala er rétt, þ.e. brúttóáhrifin af hækkun tryggingagjaldsins um 0,77% eru 3,3 milljarðar kr. en af því greiðir atvinnulífið 2,5 milljarða kr. Rétt er að benda á það strax, áður en þingmaðurinn bendir mér á það, að á bls. 12 er villa að því er þetta varðar þar sem talað er um brúttóáhrif tekna ríkissjóðs varðandi tryggingagjaldið. Hins vegar er þetta rétt fram sett í fylgiskjalinu sem fylgir hérna með. Þar er talað um 2,5 milljarða kr. kostnað atvinnulífsins, þ.e. það sem mundi koma í ríkissjóð frá atvinnufyrirtækjunum af þessari hækkun. Þetta er rétt að leiðrétta. En það breytir ekki því að talan 2,5 er þá tekjuauki sem ríkissjóður hefði af þessu að því er okkur sýnist best. En þetta er líka rétt að skoða betur í þingnefndinni eins og allar þessar tölur.

Varðandi síðan önnur atriði sem þingmaðurinn nefndi þá tel ég kannski ekki beint ástæðu til þess að fjölyrða um þau. Ég vil hins vegar taka undir það sem hann sagði í ræðu sinni, að það er mjög varhugavert að taka þessa reikninga alla saman úr fjárlagafrv. og annars staðar og bara reikna eitthvert línulegt samband. Þess vegna höfum við ekki reiknað það þannig út að tekjur af 18% tekjuskatti fyrirtækja séu bara línulegt hlutfall af því sem 30% skatturinn gefur vegna þess, eins og hann sagði réttilega, að ekki er um að ræða svona beint línulegt samband í mannlegu samfélagi eða í efnahagslegri kviku og hringiðu þar sem hlutirnir breytast og hegðun fyrirtækja og einstaklinga breytist og menn taka nýjar ákvarðanir með tilliti til umhverfisins. Það er af þeim sökum sem við höfum reiknað með því að þetta hefði verulega örvandi áhrif á efnahagslífið og á skatttekjur ríkissjóðs þegar fram í sækir. Ég tek undir það að alveg nauðsynlegt er að menn hafi þetta sjónarmið í huga þó að hann hafi kannski haft annað atriði sjálfur í huga þegar hann nefndi þetta.

Ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra, herra forseti. Ég endurtek þakkir mínar til þeirra sem hér hafa tekið til máls. Það er mjög nauðsynlegt að öll sjónarmið séu reifuð við 1. umr. Síðan vil ég taka það fram að bæði ég sjálfur og starfsmenn ráðuneytisins munu að sjálfsögðu verða þingnefndinni innan handar eins og kostur er til þess að fá botn í þetta mál og fá það afgreitt á heppilegum tíma fyrir áramót þannig að við lendum ekki í tímaþröng með þetta mál fyrir jólin.