Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Þriðjudaginn 09. október 2001, kl. 19:14:15 (335)

2001-10-09 19:14:15# 127. lþ. 6.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 127. lþ.

[19:14]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég hef aðeins eina örstutta athugasemd og fyrirspurn í tilefni af sögulegri skoðun hæstv. fjmrh. Hann fór aftur til ársins 1988 og minnti okkur á að þeim tíma hefði sú ríkisstjórn sem þá sat við völd hækkað tekjuskatt á fyrirtækjum um tvö prósentustig, sagði hann. Hún greip eflaust til annarra ráðstafana, en á þessum tíma var verið að búa í haginn fyrir samninga á vinnumarkaði sem löngum hafa verið kenndir við þjóðarsátt og komu okkur inn á beinu brautina, færðu verðbólgu niður úr 30% niður undir 1% og grundvöllur til uppbyggingar var orðinn til. Síðan varð breyting á næstu árum. Sjálfstæðisflokkurinn komst til valda og hann fór að taka til hendinni. Hann fór að lækka skatta á fyrirtæki en auka álögur á einstaklinga og því miður á ýmsa hópa sem máttu ekki við tekjuskerðingu eða auknum álögum. Ég minni á hinar stórfelldu breytingar á barnabótunum, auknar álögur á sjúklinga. Lyfjakostnaður jókst og þegar kom fram undir lok áratugarins var ráðist á félagslega húsnæðiskerfið þannig að áherslum var breytt í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins. Sköttum á fyrirtækjum var aflétt eða úr þeim dregið. Álögur á einstaklinga, sjúklingahópa, skólanema voru auknar.

Ég fékk það á tilfinninguna undir lestri hæstv. fjmrh. eða sögulegri upprifjun hans að hér hefðu menn í dag almennt verið að óska eftir hærri sköttum. Ég vissi ekki alveg hvernig ég átti að skilja hæstv. ráðherra. Ég held að menn séu nokkuð við sama heygarðshornið. Menn vilja öfluga skattheimtu en réttláta. Gagnrýnin gekk fyrst og fremst út á rangláta skattlagningu ríkisstjórnarinnar og Sjálfstæðisflokksins sérstaklega.