Sala á hlutabréfum Landssímans hf.

Miðvikudaginn 10. október 2001, kl. 13:34:25 (339)

2001-10-10 13:34:25# 127. lþ. 8.94 fundur 59#B sala á hlutabréfum Landssímans hf.# (umræður utan dagskrár), Flm. ÖS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 127. lþ.

[13:34]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Það er kunnara en frá þurfi að segja að salan á hlutabréfum Landssímans var eitthvert mesta klúður sem þessi þjóð hefur lengi orðið vitni að. Það er raunar sama hvort horft er til verðlagningar, tímasetningar eða söluaðferðarinnar sjálfrar. Allt var þetta í andstöðu við vilja markaðarins og sjálf aðferðin var meira að segja gagnrýnd af forstjóra Símans.

Herra forseti. Fyrst aðeins að þeim hráskinnaleik sem nú stendur yfir varðandi forstjóra Símans. Ég kvarta ekki undan því hvernig hann og raunar stjórn fyrirtækisins hefur haldið á hlut mínum og skattborganna í því fyrirtæki, það hefur satt að segja tekist býsna vel. Nú er forstjóri Símans sendur í frí þó að hann hafi losað um umdeilanleg tengsl til þess að sýna góða reglu á hlutunum við einkavæðinguna og það er prýðilegt fordæmi. Eða er það kannski ekki fordæmi?

Hvaða siðareglur gilda um einkavæðingarnefndina sjálfa? Er ekki formaður hennar stjórnarformaður í fimmta stærsta fyrirtæki landsins? Hefur ekki þetta félag eða eignarhaldsfélag á vegum þess, sem hann er líka stjórnarformaður í, fjárfest beint eða óbeint í ýmsum óskráðum félögum sem starfa á sviðum sem eru skyld starfsemi Landssímans? Telur ekki hæstv. samgrh. að það þurfi að gilda skýrar siðareglur líka fyrir þá sem sitja í einkavæðingarnefnd og veita henni forstöðu, alveg eins og forstjóra Símans, til þess að koma í veg fyrir að árekstrar gætu hugsanlega komið upp í framtíðinni?

Herra forseti. Mér þykir vænt um Símann. Síminn var fyrsta fyrirtækið sem ég starfaði hjá. Ég byrjaði sem sendill hjá Símanum þegar ég var átta ára gamall meðfram barnaskóla. Þegar kom fram í menntaskóla og mér tók að spretta grön þá var ég næturvörður hjá Símanum og gætti eigna hans, bæði á Sölvhóli og líka húsanna hérna handan við götuna sem nýlega voru seldar.

Herra forseti. Ég þori að fullyrða að sá gamli næturvörður sem hér stendur í stóli gætti eigna Símans vel. Það sama verður hins vegar ekki sagt um hæstv. samgrh. og einkavæðingarnefnd. Það var einkavæðingarnefnd sem hæstv. ráðherra ber pólitíska ábyrgð á í þessum efnum sem bar ábyrgð á því að Síminn var ekki seldur þegar markaðurinn fór með himinskautum alllangan tíma. Hæstv. ráðherra skildi ekki vitjunartímann og einkavæðingarnefndin svaf á verðinum. Silaháttur stjórnvalda felldi Símann í verði um 20--30 milljarða að mati fjármálamanna sem gjörþekkja fjarskiptamarkaðinn.

Verðið. Markaðurinn sem þessi ríkisstjórn hefur gert að guði sínum sagði að verðið væri allt of hátt. Greiningardeild Íslandsbanka færði afar sterk rök fyrir því. Landsbréf voru sömu skoðunar, Íslensk verðbréf líka. Ég spyr hæstv. samgrh.: Af hverju var ekki farið að ráðleggingum markaðarins? Af hverju var ekki farið að þeim ráðum sem Búnaðarbankinn sem sá um útboðið gaf einkavæðingarnefndinni?

Tímasetningin. Það eru mörg ár síðan stjórnvöld ákváðu að selja Símann og fyrst búið var að ákveða það hví í ósköpunum fór salan ekki fram meðan markaðurinn var langtímum saman á flugi? Ég rifja upp að þegar frv. um sölu Landssímans var lagt fyrir Alþingi á síðasta ári þá var það útskýrt nákvæmlega fyrir þingheimi að salan ætti að fara fram í vor. Henni var svo enn frestað fram á haust. Þá höfðu markaðir fallið enn meira, verðgildi Símans rýrnað enn frekar. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvað réð þessum frestunum?

Aðferðin. Ég sagði strax að það væri röng aðferð að bjóða kjölfestufjárfesti meiri hluta í stjórninni gegn því að kaupa einungis fjórðung í fyrirtækinu. Hvers vegna? Vegna þess að meiri hluta fylgja völd, m.a. tækifæri til þess að nota hið gríðarlega fjárstreymi í gegnum fyrirtækið til þess að sópa upp öðrum smáum fyrirtækjum á markaðnum, láta fyrirtækinu blæða eins og það heitir víst á markaðsmáli. Kjölfestufjárfestirinn fékk því mikinn afslátt, honum bauðst í raun fyrirtækið á lægra verði en litlu fjárfestunum. Það er ástæðan fyrir því að svona fór.

Það var líka rangt að hafa ekki gengið frá því hver kjölfestufjárfestirinn yrði til þess að stefna fyrirtækisins inn í framtíðina yrði ljós. Það að ekki var búið að gera það skapaði óvissu sem varð til þess að lífeyrissjóðirnir treystu sér ekki inn. Hvernig brugðust svo stjórnvöld við? Jú, formaður einkavæðingarnefndar skammaði fjölmiðla. Hæstv. samgrh. réðst af hörku á Búnaðarbankann og sagði að allt væri honum að kenna og báðir slógust þeir í för með hæstv. forsrh. sem sagði að lífeyrissjóðirnir hefðu haft samráð um að eyðileggja stefnu stjórnvalda.

Herra forseti. Ég vildi spyrja hæstv. samgrh.: Er hann enn þeirrar skoðunar að Búnaðarbankinn hafi átt sök á því hvernig fór eða ætlar hann að nota tækifærið og biðja bankann afsökunar? Er hann enn þeirrar skoðunar að lífeyrissjóðirnir hafi haft samráð um að kaupa ekki eða ætlar hann að sýna drenglyndi og biðja þá afsökunar? Í ljósi þess hvernig einkavæðingarnefnd hefur stýrt söluferli Símans, telur hann þá ekki rétt að fela einhverjum öðrum að stýra því héðan í frá?