Sala á hlutabréfum Landssímans hf.

Miðvikudaginn 10. október 2001, kl. 13:39:42 (340)

2001-10-10 13:39:42# 127. lþ. 8.94 fundur 59#B sala á hlutabréfum Landssímans hf.# (umræður utan dagskrár), samgrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 127. lþ.

[13:39]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Eins og hv. þm. þekkja er sala á hlutabréfum í Landssímanum hafin. Það er í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar um að ríkið dragi sig út úr starfsemi á samkeppnismarkaði líkt og er að gerast víða í Evrópu. Aðdragandi þessa var langur og allur undirbúningur við sölu Símans afar vandaður. Meira en 2.600 einstaklingar hafa skráð sig fyrir hlut í Símanum, þar af fleiri en 600 starfsmenn Símans.

Þá sýndu 17 fyrirtæki og sjóðir því áhuga að gerast kjölfestueigendur í Símanum, sem sýnir hversu góður fjárfestingarkostur fyrirtækið er talið hjá þeim sem þekkja fjarskipti hvað best og um leið hve fyrirtækið er vel í stakk búið, ekki síst tæknilega, til að verða öflugur hlekkur í keðju alþjóðlegs fjarskiptafyrirtækis.

Við undirbúning var lögð áhersla á að gefa almenningi og starfsmönnum kost á að kaupa allt að 16% hluta í fyrsta áfanga á undan fjárfestum. Sala til kjölfestuaðila færi fram í öðrum áfanga, en það er sá áfangi sem nú stendur yfir. Jákvæð viðbrögð starfsmanna eru augljós vottur um sterka stöðu fyrirtækisins og þá miklu trú sem starfsfólkið hefur á framtíð fyrirtækisins við einkavæðingu.

Einkavæðingarnefnd ríkisstjórnarinnar lagði ríka áherslu á vandaðan undirbúning sölunnar. Að undangengnu útboði þar sem yfir 20 fyrirtæki og fjármálastofnanir kepptu var samið við hið virta alþjóðlega ráðgjafarfyrirtæki, ráðgjafar- og endurskoðunarfyrirtækið PricewaterhouseCoopers, um verðmat Símans og sölu til kjölfestuaðila. Fyrirtækið sem jafnframt starfar hér á landi hefur mikla reynslu á þessu sviði. Þá var samið við Búnaðarbanka Íslands við sölu og skráningu hér innan lands.

Verðmat Símans var mjög vandað, byggt á fyrirliggjandi rekstraráætlunum og mati sérfræðinga á framtíðarvirði fyrirtækisins. Ég verð að viðurkenna að ég er sáttari við þá gagnrýni sem ég hef setið undir fyrir hátt verð en væri ég sakaður um að verðið væri of lágt. Síminn er mikils virði hvað sem þingmenn stjórnarandstöðunnar eða einstakir sérfræðingar á fjármálamarkaði segja. Það hefur þegar sýnt sig að gengi hlutabréfanna til almennings, 5,75, var miðað við sanngjarnt verð, enda eru bréf í fyrirtækinu farin að seljast í dag á genginu 6,1 á tilboðsmarkaði Verðbréfaþings Íslands.

Málshefjandi, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, hafði uppi gagnrýni í þinginu í vor þegar salan var rædd. Taldi hann víst að selja ætti á undirverði. Hann sagði einnig að of hratt væri farið þegar áform voru uppi um að selja í júní en sagði samt í maí að selja hefði átt fyrir 2--3 missirum og fyrir miklu hærra verð, talaði þá um allt að 60 milljarða kr. Hvað segir þingmaðurinn í dag? Hann virðist í niðurtalningarkórnum sem telur verðið of hátt og reynir að gera það tortryggilegt að ekki var selt í vor. Slíkur málflutningur er fjarri því að vera traustvekjandi.

Í umræðum í þinginu í vor sagði ég að salan færi fram þegar aðstæður leyfðu. Meginástæða þess að ekki var selt þá var að Eftirlitsstofnun EFTA hafði ekki skilað áliti sínu um meintan ríkisstuðning við Símann vegna kæru Tals hf. Þá sögu ættu hv. þm. Samfylkingarinnar að þekkja vel. Ríkisstjórnin taldi ekki forsvaranlegt að taka þá áhættu að skapa óvissu um virði Símans vegna meðferðar ESA. Það var ekki fyrr en undir lok júlímánaðar að jákvæð niðurstaða eftirlitsstofnunarinnar barst og það var mat sérfræðinga minna að haustið væri heppilegur tími fyrir söluna. Ég vil árétta að sú ákvörðun að selja dagana 19.--21. september var tekin að yfirveguðu ráði í vor, að því gefnu að ákvörðun ESA lægi fyrir. Allt tal um að umhyggja fyrir öðrum símafyrirtækjum hafi ráðið þeirri ákvörðun að selja í haust er tilraun til þess að sverta pólitíska andstæðinga og sá málflutningur er ekki samboðinn formanni Samfylkingarinnar.

Virðulegi forseti. Í dag er unnið að öðrum áfanga sölu Landssímans, sölu til kjölfestufjárfestis. Sú sala er mjög mikilvæg fyrir framhaldið og þróun verðs á hlutabréfum í Símanum. Það er vissulega ástæða til þess að fagna því hversu margir hafa sýnt Símanum áhuga. Mjög miklu máli skiptir að fá öflugt fyrirtæki til samstarfs við Símann. Fyrirtæki sem kaupir 25--35% í Símanum er að taka að sér mikilvægt verkefni í áframhaldandi uppbyggingu og þjónustu á sviði fjarskiptanna. Því er eðlilegt að kjölfestuaðilinn njóti stuðnings stærsta eigandans, þ.e. ríkissjóðs, til að tryggja meiri hluta í stjórn fyrirtækisins. Í traustu umhverfi lagasetningar og reglna skiptir ekki máli hver eigandi fyrirtækisins er.