Sala á hlutabréfum Landssímans hf.

Miðvikudaginn 10. október 2001, kl. 13:51:36 (344)

2001-10-10 13:51:36# 127. lþ. 8.94 fundur 59#B sala á hlutabréfum Landssímans hf.# (umræður utan dagskrár), GHall
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 127. lþ.

[13:51]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Eitt af meginmarkmiðum einkavæðingarstefnu ríkisstjórnarinnar er að skapa samkeppni á markaði, ekki einvörðungu að fá mögulegt hámarksverð fyrir það sem verið er að selja. Ef sala Símans hefði farið fram í vor hefði það ekki eingöngu skaðað Íslandssíma heldur hefði það getað haft slæm áhrif á fjarskiptamarkaðinn í heild sinni. Það er dæmigert fyrir þingmenn á vinstri vængnum að taka ekki tillit til þeirra sem eru að fóta sig á markaðnum heldur hugsa eingöngu þröngt um málið. Skipta nýju fjarskiptafyrirtækin engu eða starfsfólk þeirra fyrirtækja? Átti ríkissjóður blákalt að valtra yfir allt og alla í vor?

Það var athyglisvert að hlusta á hv. formann þingflokks Samfylkingarinnar þegar hann talaði um lífeyrissjóðina, að þeir hafi ekki viljað koma nálægt þessu máli. Þeir töldu verðið of hátt en einnig að sú óvissa, að vita ekki hver yrði kjölfestufjárfestir gerði það að verkum að áhættan væri of mikil. Þegar hefur verið undirstrikuð sanngirni þess að selja á genginu 5,75. Bréf í fyrirtækinu seljast í dag á genginu 6,1. Það er skýrt merki af hálfu eigandans um að ekki standi til að selja fyrirtækið gegn lægra verði. Í því felast einnig skýr skilaboð til kjölfestufjárfestis og því sérlega ánægjulegt hve margir sýna Símanum áhuga. En um leið er sérstakt rannsóknarefni hve fálmkennd fjárfestingarstefna lífeyrissjóðanna virðist vera. Mýmörg dæmi um fjárfestingar í erlendum fyrirtækjum sem lífeyrissjóðirnir hafa tekið þátt í benda til þess að þeir hafi ekki vitað haus né hala á þeim fyrirtækjum, t.d. í Bandaríkjunum. Það er rannsóknarefni út af fyrir sig hvers vegna lífeyrissjóðirnir hafa ekki áhuga á einu albesta fyrirtæki sem komið hefur á hinn frjálsa markað hér á landi.

Hv. formaður Samfylkingarinnar, Össur Skarphéðinsson, sagði á vordögum:

,,Við erum þeirrar skoðunar almennt að það fari vel á því að flytja samkeppnisrekstur úr höndum ríkisins yfir á markað og við leggjumst ekki gegn því að samkeppnisrekstur Símans verði seldur.``

Það er mjög ánægjulegt, en það er hins vegar athyglisvert að hlusta á vinsti græna. Vinstri menn eru í mótsögn við sjálfa sig eins og endranær.