Sala á hlutabréfum Landssímans hf.

Miðvikudaginn 10. október 2001, kl. 13:54:05 (345)

2001-10-10 13:54:05# 127. lþ. 8.94 fundur 59#B sala á hlutabréfum Landssímans hf.# (umræður utan dagskrár), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 127. lþ.

[13:54]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Með fullri virðingu fyrir Guðmundi Franklín Jónssyni, fjárfesti í New York, og félögum og með fullri virðingu fyrir símanum á Möltu, þá neita ég því ekki að mér brá í brún morguninn sem landsmenn fengu þær fréttir í útvarpsfregnum að þessir aðilar ásamt öðrum kæmu til greina sem svokallaður kjölfestufjárfestir í Landssíma Íslands. Þeir áttu að koma í stað þeirrar kjölfestu sem núverandi eigandi Landssímans, íslenska þjóðin, hefur verið þessari stofnun frá upphafi vega.

Landssími Íslands er mikilvægt þjónustufyrirtæki. Það er hefur ekki aðeins byggt upp eitthvert besta fjarskiptakerfi sem við þekkjum í heiminum. Það hefur líka reynst landsmönnum mikilvæg gullgerðarvél. Það hefur fært ríkissjóði tugi milljarða á liðnum áratugum í ríkissjóð til að reka og standa straum af kostnaði við samneyslu í landinu.

Nú hefur ríkisstjórnin og meiri hlutinn hér á Alþingi ákveðið að svipta þjóðina þessari mikilvægu eign sinni. Ekki nóg með það heldur hefur hún ákveðið að íþyngja jafnframt íslenskum skattborgurum. Þegar við bentum á að reynslan erlendis frá sýndi okkur ótvírætt að draga mundi úr þjónustu, einkum í dreifðum byggðum, þá var okkur bent á, m.a. af hæstv. ráðherra, að menn hefðu nýsett í lög ákvæði þess efnis að ríkissjóður gæti eftir sem áður fjármagnað það sem ekki gæfi arð. Þannig er verið að afsala okkur dýrmætri eign og jafnframt íþyngja íslenskum skattborgurum. Það er áhyggjuefni að þjóðin eigi ekki betri hagsmunagæslumenn en þessa ríkisstjórn.