Sala á hlutabréfum Landssímans hf.

Miðvikudaginn 10. október 2001, kl. 13:56:21 (346)

2001-10-10 13:56:21# 127. lþ. 8.94 fundur 59#B sala á hlutabréfum Landssímans hf.# (umræður utan dagskrár), EMS
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 127. lþ.

[13:56]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Það viðurkenna allir að fyrsta skrefið í sölu Landssímans hafi mistekist. Menn eru að vísu ekki alveg sammála um hvað hafi brugðist en ljóst er að bæði verðlagning, tímasetning og söluaðferð eru gagnrýndar. Eins er ljóst að allir tengjast þessir þættir á einhvern hátt saman. Það er eðlilegt að verðið taki mið af tímasetningunni og líka eðlilegt að tímasetningin sé valin með hliðsjón af verði á hverjum tíma.

Þrátt fyrir yfirlýst markmið um það að fá sem mest fyrir ríkisfyrirtæki mátti skilja suma hæstv. ráðherra þannig að það ætti ekki við um Símann. Af sérstakri umhyggju fyrir almenningi væri gott að verðið hefði lækkað og mætti þess vegna hugsanlega lækka enn meira.

Herra forseti. Hvar eru hinar almennu reglur um einkavæðingu? Hvers vegna þarf að klæðskerasauma sumar reglur í hvert sinn sem ríkisfyrirtæki er selt? Síðan bregðast hæstv. ráðherrar við með mismunandi hætti, ýmist með því að skammast yfir því hverjir hafi keypt eða hverjir hafi ekki keypt, eins og dæmin sýna.

Hvar er sjálfsgagnrýnin? Hæstv. ráðherrar ásamt formanni einkavæðingarnefndar voru fljótir að finna ýmsa sökudólga. Það voru fjölmiðlar, Búnaðarbankinn, lífeyrissjóðirnir og ýmsir aðrir hugsanlegir kaupendur. Hér áðan kom hv. þm. Hjálmar Árnason og bætti stjórnarandstöðunni við. Mikill er máttur stjórnarandstöðunnar.

Hvergi virðist hvarfla að þessum ágætu mönnum að horfa í eigin barm og velta fyrir sér hvort hugsanlega væru einhver mistök hjá þeim sjálfum. Það er eins og þessir ágætu aðilar hafi engan áhuga á því að læra af reynslunni.

Auk þessa vekur athygli, herra forseti, að það virðist ekki aðeins sem söluáætlun einkavæðingarnefndar hafi ekki gengið eftir. Við tókum eftir því í frv. til fjáraukalaga í gær að það er farið fram á 300 þús. kr. aukafjárveitingu vegna kostnaðar nefndarinnar sem áætlaður var á árinu 15 millj. Það er ekki skrýtið þó að aðdragandinn hafi verið langur og vandaður.