Fjárhagsvandi Ríkisútvarpsins

Miðvikudaginn 10. október 2001, kl. 14:15:34 (352)

2001-10-10 14:15:34# 127. lþ. 8.95 fundur 60#B fjárhagsvandi Ríkisútvarpsins# (umræður utan dagskrár), ÖHJ
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 127. lþ.

[14:15]

Örlygur Hnefill Jónsson:

Herra forseti. Framsýnir Þingeyingar tóku upp þann góða sið á ofanverðri 19. öld að handskrifa blöð sem gengu milli bæja með fréttir úr héraði. Þetta varð öðrum til eftirbreytni.

Í nútímafjölmiðlun skipta svæðisútvörp miklu og kemur þar margt til. Fólk fær fréttir um allt land af því sem er að gerast á útsendingarsvæðum stöðvanna og ekki gleymist að þar er margt jákvætt að gerast. Það er nefnilega svo að það er ekki sama hvaðan horft er á hlutina.

Vegna þessa, herra forseti, skiptir miklu að dagskrárgerð sé unnin af heimamönnum og sjónarmiðum landsbyggðarinnar sé komið á framfæri en um 80% af efni Ríkisútvarpsins á Akureyri hefur farið út á landsrásina. Svæðisstöðvarnar skapa einnig og skerpa ímynd íbúanna á landsbyggðinni og sjálfsmynd þeirra. Hér er um störf hjá hinu opinbera að ræða sem vistuð eru á landsbyggðinni og er það í samræmi við stefnu hins háa Alþingis og byggðaáætlun að fjölga störfum þar.

Akureyri hefur verið að styrkjast byggðarlega og er það fagnaðarefni. Þetta eru því slæm skilaboð sem verið er að senda því starfi sem öflugasta svæðisútvarpið er að vinna, að fækka þar starfsmönnum úr tíu í sex og svipta í einu vetfangi 40 þús. Norðlendinga helming útvarpsefnis síns. Sama gildir um Ísafjörð og Egilsstaði.

Herra forseti. Þessu hljótum við að mótmæla. Þetta er enn ein aðförin að búsetu á landsbyggðinni. Nú skilst mér á orðum hæstv. menntmrh. að sem betur fer sé útvarpsráð að skoða þessi mál nánar. Því skora ég á hæstv. menntmrh. að sjá til þess að útvarpinu sé gert kleift að efla frekar það menningarstarf sem svæðisstöðvarnar vinna og ég fagna þeim hugmyndum sem hæstv. ráðherra kynnti hér í stóli áðan, að gera útvarpið á Akureyri að miðstöð svæðisútvarpanna á landsbyggðinni því menning er líka byggðamál nú sem fyrr.