Fjárhagsvandi Ríkisútvarpsins

Miðvikudaginn 10. október 2001, kl. 14:34:06 (360)

2001-10-10 14:34:06# 127. lþ. 8.95 fundur 60#B fjárhagsvandi Ríkisútvarpsins# (umræður utan dagskrár), Flm. SJS
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 127. lþ.

[14:34]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og ég þakka jafnframt hæstv. menntmrh. fyrir svörin þó að ég verði að segja að mér fundust þau rýr í roðinu í öllum aðalatriðum. Sú fullyrðing mín stendur óhögguð að það hefur þrengt að Ríkisútvarpinu með margvíslegum hætti á undanförnum árum. Það er staðreynd að afnotagjöld hafa hvergi nærri fylgt verðlagi ef litið er til nokkurra síðustu ára þó svo að 7% hækkun hafi nú loks verið heimiluð sem gefur reyndar ekki nema 140 millj. kr. í tekjur á ársgrundvelli öfugt við 280 eins og hv. þm. Sigríður A. Þórðardóttir sagði áðan.

Afnotagjöldin hafa ekki fylgt verðlagi, lífeyrisskuldbindingarnar hvíla þungt á útvarpinu og taka á þriðja hundrað milljónir út úr rekstrinum á ári. Flutningur sjónvarpsins í Efstaleitið varð mjög dýr og Ríkisútvarpið varð að taka það af eigin tekjum sínum. Sinfóníuhljómsveitin hefur fengið meira til sín. Taprekstur hefur safnast upp og hleður á sig kostnaði. Ríkisútvarpið skuldar mikið í erlendri mynt og þær byrðar þyngjast þegar gengi krónunnar fellur. Ríkisútvarpið er rekið á yfirdráttarheimild. Segir þetta ekki sína sögu? Geta hæstv. menntmrh. og hv. formaður menntmn. komið hér og sagt eins og ekkert sé að það sé bara rangt að það hafi þrengt að Ríkisútvarpinu undanfarin ár? Það eru algjörlega borðleggjandi, óhrekjandi sannanir fyrir því að starfskilyrði þessarar stofnunar hafa verulega versnað. Ríkisútvarpið er verr í stakk búið nú en það hefur verið um langt árabil til að sinna sínu mikilvæga hlutverki. Það er náttúrlega eins og argasta öfugmæli að vitna í byggðaáætlun í ljósi þess sem verið er að gera á svæðisstöðvunum núna.

Hugmyndir menntmrh. um að breyta Rás 2, ef ég skildi hann rétt, í einhvers konar miðstöð svæðisútvarpanna er sjálfsagt að skoða. En það er ekki rétta aðferðin að byrja á því að láta þá starfsemi sem þar er hrynja niður, er það? Og það er eins gott að á bak við þetta sé ekki gamla þráhyggja Sjálfstfl. um að koma Rás 2 fyrir kattarnef þannig að um leið og ég lýsi mig tilbúinn til að skoða þær hugmyndir hef ég alla fyrirvara á því hvað á bak við þær liggur. (Forseti hringir.) Herra forseti. Það er alveg ljóst að þær hugmyndir sem hér er varpað fram koma ekki í stað þeirrar starfsemi sem nú er verið að skerða hjá Ríkisútvarpinu.