Innkaup heilbrigðisstofnana

Miðvikudaginn 10. október 2001, kl. 14:47:34 (365)

2001-10-10 14:47:34# 127. lþ. 8.1 fundur 64. mál: #A innkaup heilbrigðisstofnana# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 127. lþ.

[14:47]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég endurtek að hér er um mikilvægt mál að ræða og allar ábendingar í þessu efni og umræður um þetta mál eru af hinu góða.

Ég vil benda á það meginatriði í þessu sambandi, af því að minnst var á sneiðmyndatæki áðan, að stóru sjúkrahúsin hafa verið sameinuð og sú sameining leiðir náttúrlega til mikillar samræmingar varðandi tækjakaup þessara stóru stofnana þar sem stóru tölurnar sjást. Það er auðvitað æskilegt að nota útboð sem mest. Ég hef reyndar ekki tölur á reiðum höndum yfir það hve mikið er boðið út --- ég get aflað þeirra --- en það er æskilegt að sem mest sé boðið út, ég er þeirrar skoðunar.

Hvað röntgentækin varðar er það nú þannig á hinum ýmsu heilbrigðisstofnunum að menn hafa reynt að nýta þau til hins ýtrasta --- það er nú reynslan --- þannig að þetta gengur ekki þannig fyrir sig að þar séu keypt svo og svo mörg röntgentæki í einu. En hitt er annað mál að kosti samninga og útboða ber auðvitað að nýta sem best í þessu kerfi.

Ég hef ekki kannað boðsferðir lyfjafyrirtækja, hef ekki upplýsingar um hvort þær hafi einhver áhrif á innkaup á rekstrarvörum til heilbrigðiskerfisins og innkaup á lyfjum. Ég hef heyrt um þetta mál getið í umræðunni en ég vonast sannarlega til að slíkt hafi ekki úrslitaáhrif. Það er þó sjálfsagt að huga að þessum málum eins og öðrum í þessu kerfi.