Lyfjastofnun

Miðvikudaginn 10. október 2001, kl. 14:53:19 (367)

2001-10-10 14:53:19# 127. lþ. 8.2 fundur 104. mál: #A Lyfjastofnun# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 127. lþ.

[14:53]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. 1. þm. Vestf. fyrir að hreyfa þessu máli og ég geri hér með grein fyrir því.

Lyfjastofnun varð til með lögum nr. 108/2000 um breytingu á lyfjalögum frá 1994. Umrædd breyting hafði í för með sér sameiningu á starfsemi Lyfjaeftirlits ríkisins og lyfjanefndar ríkisins en þessi stofnun fékk ekki ný verkefni. Lyfjastofnun hóf svo formlega starfsemi sína 1. nóv. árið 2000.

Stofnunin er að mestu fjármögnuð með þjónustugjöldum sem hún aflar með gjaldtöku vegna veitinga markaðsleyfa fyrir lyf, umfjöllun um lyf með markaðsleyfi og gjaldtöku vegna eftirlits með lyfjafyrirtækjum og stofnunum. Umfjöllunin um markaðsleyfi er um 3/4 af starfseminni.

Strangir tímafrestir eru á verklokum umfjöllunar sem byggjast á því að umfangsmikil gögn hafi borist stofnuninni á réttum tíma. Flestir viðskiptavinir Lyfjastofnunar eru staðsettir á höfuðborgarsvæðinu eða erlendis. Þau verkefni sem Lyfjastofnun ber lögbundið að sinna krefjast sérfræðiþekkingar, sérstaklega á sviði læknis- og lyfjafræði, og starfar stofnunin í nánu samstarfi við sérfræðinga Háskóla Íslands, sérfræðinga á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi, yfirdýralæknisembættið, landlæknisembættið og Hollustuvernd. Stofnunin er mjög háð sérfræðiþekkingu og skal þess getið að yfir 70% starfsmanna hafa háskólapróf. Í kjölfar samninga um Evrópska efnahagssvæðið þurfa starfsmenn að taka þátt í starfi vísindanefnda hjá Evrópsku lyfjastofnuninni í London og á vegum framkvæmdastjórnar ESB.

Þegar forstjóri var ráðinn til starfa hjá Lyfjastofnun í september árið 2000 var óskað eftir því að kannaðir væru möguleikar á að vinna ákveðin verkefni á landsbyggðinni. Forstjóri stofnunarinnar kannaði hvaða verkefnum væri hægt að sinna á landsbyggðinni, bæði með tölvuvinnslu í huga og einnig með tilliti til staðsetningar verkefna og aðgengis að sérfræðingum. Niðurstaðan varð sú að mögulega væri hægt að sinna eftirliti með starfsemi lyfjabúðar, sjúkrahúsa og hjúkrunarheimila á landsbyggðinni í hlutastarfi, t.d. frá Akureyri.

Í september árið 2000 var auglýst eftir lyfjafræðingum og dýralækni og þess getið í auglýsingu að staðsetning á landsbyggðinni kæmi vel til greina. Niðurstaðan varð því miður sú að enginn lyfjafræðingur á landsbyggðinni sótti um starf. Tveir dýralæknar, staðsettir á landsbyggðinni, sóttu um hlutastarf en báðir höfðu hug á því að flytja sig hingað á höfuðborgarsvæðið.

Stofnunin hefur leitast við að flytja verkefni frá höfuðborgarsvæðinu, samanber ofangreint, en slíkt hefur ekki borið árangur til þessa. Og ég vil bæta því við að minn vilji stendur til þess að kanna áfram möguleikana þó að ég verði því miður að svara því á þessu stigi að árangur hefur ekki orðið af viðleitninni til þessa.