Lyfjastofnun

Miðvikudaginn 10. október 2001, kl. 14:56:46 (368)

2001-10-10 14:56:46# 127. lþ. 8.2 fundur 104. mál: #A Lyfjastofnun# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 127. lþ.

[14:56]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Mig langar aðeins til að rifja upp þá umræðu sem varð þegar verið var að ræða ný lög um Lyfjastofnun hér í fyrra eða hittiðfyrra, ég man ekki nákvæmlega fyrir hversu löngu síðan. Þá var einmitt rætt um hvort stofnunin gæti starfað úti á landi og það kom mjög skýrt í ljós, bæði í heilbr.- og trn. og hér í umræðunni í þinginu, að þessi stofnun væri sérfræðistofnun sem væri mjög háð sérfræðingum sem starfa eða búa hér á höfuðborgarsvæðinu og þurfa að sinna þessu í hlutastarfi. Jafnframt kom í ljós að fyrirtækin sem stofnunin væri að þjóna væru hér á höfuðborgarsvæðinu og svo erlendis og stofnunin þyrfti að sæta mjög ströngum tímamörkum í mörgum tilvikum, þannig að menn töldu ekki ráðlegt að staðsetja stofnunina annars staðar eða verkefni hennar heldur en hér á höfuðborgarsvæðinu.

Herra forseti. Mig langaði bara til að rifja þetta upp vegna þess að þetta kom til umræðu þegar þessi lög voru til umfjöllunar hér í þinginu og í heilbr.- og trn.