Lyfjastofnun

Miðvikudaginn 10. október 2001, kl. 14:57:56 (369)

2001-10-10 14:57:56# 127. lþ. 8.2 fundur 104. mál: #A Lyfjastofnun# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., JB
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 127. lþ.

[14:57]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Það sem vakti athygli mína í svari hæstv. ráðherra þegar hann var að telja upp rökin fyrir því að stofnunin þyrfti að vera í Reykjavík var að hún byggði starfskrafta sína á svo háu hlutfalli af háskólamenntuðu fólki og sérmenntuðu og að hún þyrfti að geta tekið þátt í vísindasamstarfi, sótt ráðstefnur erlendis og svo víðar.

Ég mótmæli því að þetta geti í sjálfu sér verið rök fyrir því að þurfa að staðsetja stofnun hérna í Reykjavík. Ég þekki stofnanir og veit um stofnanir úti um land sem eru með mjög hátt hlutfall af háskólamenntuðu fólki, taka mikilvægan og virkan þátt í erlendu samstarfi og skila sínu hlutverki ágætlega. Ég vara þannig við því þegar verið er að draga upp svona myndir af því að á höfuðborgarsvæðinu eigi að vera háskólamenntaða fólkið og stofnanirnar, úti á landsbyggðinni geti verið eftirlitsaðilar og sendibílstjórar og aðrir, þó að það séu líka göfug verkefni.

Ég hvet til þess að þau sjónarmið séu höfð í huga að háskólamenntað starfsfólk geti líka starfað úti á landi.