Orkukostnaður lögbýla

Miðvikudaginn 10. október 2001, kl. 15:19:46 (380)

2001-10-10 15:19:46# 127. lþ. 8.4 fundur 105. mál: #A orkukostnaður lögbýla# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi EKG
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 127. lþ.

[15:19]

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. fyrir svörin og fagna þeirri yfirlýsingu sem fram kom í máli hæstv. ráðherra. Ljóst er að hæstv. ráðherra hefur brugðist mjög vel við frá því að þessu máli var fyrst hreyft hér á Alþingi með því í fyrsta lagi að beina málinu inn í þann farveg sem þegar var kominn í ráðuneytinu í þá nefnd sem er að vinna að þeirri endurskoðun sem fram kom, og síðan að nefndin er um það bil að ljúka verki sínu hvað þetta mál áhrærir sérstaklega. Ég tel það fagnaðarefni hversu hratt og vel hefur verið unnið að málinu.

Ég tek líka undir það með hæstv. ráðherra að vitaskuld þarf sú niðurgreiðsluleið sem hæstv. ráðherra var að boða að ná til allra íbúðareigenda en ekki bara á lögbýlum og það er auðvitað hárrétt athugasemd.

Ég neita því vissulega ekki að það er dálítið vandmeðfarið hvernig á að standa að styrkjum og niðurgreiðslum af þessu tagi og eins og kom fram þegar ég á sínum tíma mælti fyrir þessari fyrirspurn, fyrri fyrirspurninni sem liggur til grundvallar þessu máli hér, þá vakti ég athygli á að þetta mætti ekki leiða til þess að hvati myndaðist til þess að nýta olíu til húshitunar heldur fremur þegar um væri að ræða þá stöðu að fólk ætti ekki annan valkost en að nota olíuna, þá yrði reynt að koma til móts við slíka aðila.

Ég tel þess vegna að einboðið sé, eins og hæstv. ráðherra talar um, að málum varðandi niðurgreiðslu á orkukostnaði fólks sé skipað með heildstæðum hætti. Hér er um að ræða mikið réttlætismál. Um er að ræða mál sem snýr að lífskjörum fólksins á landsbyggðinni, ekki síst til sveita. Þess vegna er nauðsynlegt að staðið sé vel að þeim málum og ég fagna þeirri umræðu sem fór fram og þeim stuðningi sem kom fram við málið hjá þeim hv. þm. sem hér töluðu.