Orkukostnaður lögbýla

Miðvikudaginn 10. október 2001, kl. 15:21:45 (381)

2001-10-10 15:21:45# 127. lþ. 8.4 fundur 105. mál: #A orkukostnaður lögbýla# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 127. lþ.

[15:21]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir að hreyfa málinu og eins þær undirtektir sem það hefur fengið hér. Ég held ég muni það rétt að 2% þjóðarinnar noti enn þá olíu til upphitunar og er það í sjálfu sér mjög lágt hlutfall miðað við það sem víða er, en aðrar þjóðir hafa svo sannarlega tekið eftir því hve vistvæn við erum á þessu sviði og er það ánægjulegt.

Hvað varðar það mál sem hv. þm. Hjálmar Árnason kom inn á með vindmyllurnar og að ef það þróaðist í þá átt að verða hagstætt efnahagslega, þá er að sjálfsögðu ekki útilokað að við það að breyta yfir í slíka vistvæna orku mætti horfa til þeirra aðila á svipaðan hátt og gert hefur verið þegar menn hafa farið yfir í hitaveitur. Eins hefur sú ákvörðun verið tekin að þeir sem hætta að taka niðurgreiðslur frá ríkinu vegna húshitunarkostnaðar en fara yfir í eigin framleiðslu í sambandi við bændavirkjanir fái að njóta svipaðrar fyrirgreiðslu og fái sem nemur fimm ára styrkveitingu í eingreiðslu. Mér finnst því að vindmylluþátturinn ætti að geta átt erindi þarna inn þegar að því kemur að hann verður raunhæfur, ef hann á annað borð reynist verða það.