Kynning á alþjóðlegum viðskiptafélögum

Miðvikudaginn 10. október 2001, kl. 15:23:37 (382)

2001-10-10 15:23:37# 127. lþ. 8.5 fundur 117. mál: #A kynning á alþjóðlegum viðskiptafélögum# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., Fyrirspyrjandi ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 127. lþ.

[15:23]

Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Á árinu 1999 var varið 15 millj. kr. til kynningar á lögum um alþjóðleg viðskiptafélög. Árið eftir var aftur varið 15 millj. kr. til þessarar kynningarstarfsemi. Síðan var ráðgert að verja 10 millj. árið eftir og samkvæmt upplýsingum hæstv. viðskrh. til Alþingis hafði ríkisstjórnin á prjónunum 5 millj. fyrir árið 2003.

Samkvæmt fjárlagafrv. eins og það liggur fyrir núna virðist hafa verið skrúfað fyrir þær fjárveitingar. Við fáum eflaust upplýsingar um það núna hjá hæstv. ráðherra.

Þetta er samstarfsverkefni Fjárfestingarstofunnar, viðskrn. og Verslunarráðs Íslands til að kynna lög nr. 31/1999. Um hvað fjalla þessi lög? Þau miða að því að laða til landsins erlend fyrirtæki með gylliboðum um lága skatta. Í stað þess að greiða 30% tekjuskatt eins og íslensk fyrirtæki gera skyldu þessi fyrirtæki greiða 5% tekjuskatt. Þau áttu ekki að greiða nein stimpilgjöld, þau áttu ekki að greiða neina eignarskatta. Menn gerðu ráð fyrir því að ef þetta yrði kynnt rækilega á erlendri grundu mundi það laða fyrirtæki til landsins.

Á vegum OECD hefur verið unnið að því að sporna gegn skaðlegri skattasamkeppni eins og það er kallað, að ríki sameinist um það sem kallað hefur verið eins konar ,,code of conduct``, siðferðisþröskuld sem hamli gegn því að þau undirbjóði hvert annað í skattalegu tilliti. Hinn 26. júlí árið 2000 var samþykkt í ráðherraráði OECD skýrsla ,,Report on Progress in Identifying and Eliminating Harmful Tax Practices`` þar sem m.a. er birtur listi yfir lög eða reglur ríkja sem geta hugsanlega talist fela í sér skaðlega skattasamkeppni. Á meðal þeirra laga sem komu til athugunar í þeirri nefnd eru umrædd lög sem íslenska ríkisstjórnin hefur varið tugum milljóna af skattfé til að kynna á erlendri grundu í samvinnu við Verslunarráð Íslands.

Nú er hæstv. viðskrh. spurður hvaða árangur hafi orðið af samstarfi viðskrn. og Verslunarráðs Íslands um kynningu á alþjóðlegum viðskiptafélögum.