Kynning á alþjóðlegum viðskiptafélögum

Miðvikudaginn 10. október 2001, kl. 15:31:20 (385)

2001-10-10 15:31:20# 127. lþ. 8.5 fundur 117. mál: #A kynning á alþjóðlegum viðskiptafélögum# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., viðskrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 127. lþ.

[15:31]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég vil að hér komi fram að ekkert stórkostlegt kynningarstarf hefur verið í gangi á þessu sviði. Þetta hefur fremur verið á þann veg að fyrirspurnum sem borist hafa (ÖJ: 40 milljónir.) hefur verið svarað. Verslunarráð sem hefur farið með það hlutverk samkvæmt samningi sem var í gildi en er nú runnin úr gildi vegna þess að hann var aldrei hugsaður til frambúðar.

Hvað varðar skoðun OECD þá er mér ekki kunnugt um að þaðan séu komin endanleg svör. Reyndar er það fjmrn. sem fer með málið, þ.e. kvartanir hafa borist þangað. Eins og ég segi þá hef ég ekki heyrt að þeim hafi borist endanleg svör frá OECD heldur er þetta vinna sem þar fer fram og nær til allra OECD-þjóðanna.

Það stóð til á síðasta vetri að leggja fram breytingu eða frv. til breytinga á þessum lögum. Eins og opinbert varð þá var það ekki gert. Það þýðir að lögin eru ekki þannig úr garði gerð að þau séu, ef mætti orða það þannig, nægilega fýsileg til að laða virkilega að erlend fyrirtæki. Mér sýnast því frekar minni líkur til framtíðar á að veruleg starfsemi verði á þessu sviði en verið hefur fram að þessu.