Lífríkið á Hornströndum

Miðvikudaginn 10. október 2001, kl. 15:39:39 (388)

2001-10-10 15:39:39# 127. lþ. 8.6 fundur 103. mál: #A lífríkið á Hornströndum# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi EKG
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 127. lþ.

[15:39]

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. umhvrh. fyrir skilmerkileg svör sem byggja á þeim rannsóknum sem gerðar hafa verið bæði af Páli Hersteinssyni og einnig af Náttúrustofu Vestfjarða sem ég hef haft möguleika á að fylgjast dálítið með.

Það sem stendur upp úr er m.a. að í þessum rannsóknum liggur fyrir að það hafi orðið veruleg fjölgun á refum í friðlandinu á þessum árum, fjölgun á grenjum í ábúð sem gekk hratt yfir eins og hæstv. ráðherra vakti athygli á, þó að vísindamenn virðist meta það svo að refafjöldinn sé kominn í jafnvægi.

Það kom líka fram að vegna þessara aðstæðna hafi flutningur refa út fyrir svæðið einnig aukist. Það kemur heim og saman við ástandið eins og því er lýst af heimamönnum. Mér finnst því að þessar rannsóknir hafi þar með rennt nokkrum stoðum undir sjónarmið þeirra sem hafa áhyggjur af vaxandi streymi vargsins út fyrir friðlandið sem leggist bæði á fuglalíf og annað dýralíf utan friðlandsins.

Hún kemur mér nokkuð á óvart, sú niðurstaða að ekki hafi orðið marktæk breyting á fjölbreytileika fuglalífs á þeim rannsóknarsvæðum í Hlöðuvík og Kjaransvík. Hins vegar liggur það líka fyrir, sem kom fram þegar menn fóru frá Ísafirði í bjarg núna sl. vor, að það leyndu sér ekki ummerkin eftir refinn. Hann hafði bókstaflega hreinsað heilu björgin af eggjum og fugli og eggjatakan varð því vart svipur hjá sjón.

Í ljósi þessa, virðulegi forseti, og ljósi þeirra upplýsinga sem fram hafa komið hjá hæstv. ráðherra um fjölgun refsins og lýsinga þeirra sem fóru í bjargið, að það sé ástæða til að fylgjast betur með þessu máli. Ég er sammála því sem hér hefur komið fram, að lífríkið á Hornströndum er alveg einstakt. Möguleikarnir fyrir okkur sem viljum njóta þess eru óendanlegir og þess vegna er mjög mikils virði að fjölbreytileiki lífríkisins viðhaldist þar um ókomna tíð.