Kjaramál sjúkraliða

Fimmtudaginn 11. október 2001, kl. 10:32:23 (397)

2001-10-11 10:32:23# 127. lþ. 9.94 fundur 64#B kjaramál sjúkraliða# (umræður utan dagskrár), Flm. ÖJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 127. lþ.

[10:32]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Við höfum oft deilt um það hér í þingsölum hvort nægjanlegu fé sé varið til heilbrigðisþjónustunnar og oft hafa ýmsir þættir heilbrigðiskerfisins verið gagnrýndir, ekki að ástæðulausu. En þegar á heildina er litið erum við stolt af heilbrigðisþjónustunni og almennt held ég að hægt sé að fullyrða að það fólk sem hefur þurft að reiða sig á þessa þjónustu vegna alvarlegra sjúkdóma ber henni vel söguna. Kerfið býr þannig vel að okkur þegar á heildina er litið.

En hvernig búum við að því fólki sem ber þessa þjónustu uppi? Hvernig launum við sjúkraliðanum sem daga og nætur situr við hlið sjúklings á gjörgæsludeild? Hver eru launakjör þeirrar stéttar sem við höfum mest af að segja, mest bein samskipti við þegar við leggjumst inn á sjúkrahús? Hvernig launum við þeim einstaklingi? Eða eigum við að orða þetta öðruvísi: Hvernig launum við þeim einstaklingi sem við köllum að sjúkrabeðinum okkur til halds og trausts jafnt að nóttu sem og degi?

Byrjunarlaun sjúkraliða eru 89.173 kr. Hæst geta grunnlaunin orðið 139 þús. kr. og þau laun fá aðeins örfáir einstaklingar í stéttinni. Hér erum við að tala um stétt sem almennt hefur náð miklum starfsaldri, meðallengd ráðningarsambands eru rúmlega 16 ár. Meðalgrunnlaun sjúkraliða eru 117 þús. kr. Þetta er stétt sem við ætlumst til að sé reiðubúin til starfa að nóttu sem degi alla daga ársins, helga daga jafnt sem virka daga, um jól og páska, því allar stundir þarf að manna sjúkragangana. Ég er sannfærður um að öll gerum við okkur grein fyrir því að þessi störf eru bæði andlega og líkamlega slítandi. Það á að launa þessi störf vel. Ég spyr þá sem aðeins geta hugsað á markaðsvísu á grundvelli framboðs og eftirspurnar: Er það ekki umhugsunarvert að 100 sjúkraliðar skuli nú hafa sagt upp störfum og að fleiri séu á útleið? Er það ekki umhugsunarvert að meðalaldur í stéttinni, sem fyrir 10 árum var ekki hár, skuli nú kominn í 48 ár og stefnir upp á við? Er það ekki umhugsunarvert og jafnframt áhyggjuefni að ungt fólk skuli ekki lengur koma til starfa í þessari undirstöðustétt heilbrigðisþjónustunnar?

Ef vel ætti að vera þyrftu laun sjúkraliða að tvöfaldast en sú lágmarkskrafa sem við hljótum að gera er að við samningaborðið verði teknar alvarlega réttmætar ábendingar stéttarinnar um hvernig dregið hefur í sundur með sjúkraliðum og öðrum stéttum. Í þessu sambandi hafa sjúkraliðar bent á kjaraþróun lögreglumanna, tollvarða og einnig hefur verið vísað inn í heilbrigðiskerfið sjálft.

Í ársbyrjun 1998 námu grunnlaun sjúkraliða 81% af launum hjúkrunarfræðinga. Núna er þetta hlutfall komið niður í 67%. Hjúkrunarfræðingar eru vel komnir að sínum launum og mættu þau vera miklu hærri. En ég spyr: Hvers eiga sjúkraliðar að gjalda? Hvers vegna er þeim þröngvað út í verkfallsátök sem allir vildu vera lausir við? Hvers vegna er ekki þegar í stað gengið til samninga á grundvelli réttmætrar kröfugerðar sem þessi stétt hefur reist?

Um næstu mánaðamót er liðið eitt ár síðan samningar losnuðu. Við höfum ekki efni á að bíða deginum lengur eftir að þessi deila verði leyst. Nú er þeirri beiðni, þeirri ósk og kröfu beint til hæstv. fjmrh. að hann gangi þegar í stað til móts við sjúkraliða og forði heilbrigðiskerfinu frá frekari vandræðum en þegar hafa skapast. Fyrirsjáanleg eru enn þá meiri vandamál ef ríkisstjórnin er ekki reiðubúin að sýna raunsæi og sanngirni í þessari kjaradeilu.