Kjaramál sjúkraliða

Fimmtudaginn 11. október 2001, kl. 10:46:11 (401)

2001-10-11 10:46:11# 127. lþ. 9.94 fundur 64#B kjaramál sjúkraliða# (umræður utan dagskrár), EOK
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 127. lþ.

[10:46]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Allir sem hafa komið nálægt kjarasamningum þekkja að samanburður er það sem knýr þá áfram. Þeir sem fara fram með launakröfur hafa alltaf rétt fyrir sér vegna þess að þeir eru alltaf með samanburð. Þannig hefur það alltaf gengið og þannig mun það alltaf ganga.

Ég efast ekkert um að það sé rétt með farið að hjúkrunarfræðingar hafi hækkað meira en einhverjir aðrir o.s.frv. En spurningin er um það hver á ekki að hækka. Eiga ófaglærðir að hækka? Auðvitað er það þannig. Auðvitað gera menn kröfur. Auðvitað munu læknar koma í vetur. Þeir munu berjast fyrir sínu réttlæti. Þeir munu gera sínar kröfur. Þannig er þetta.

Það er alveg víst að það er miklu auðveldara um að tala en í að komast, að semja um kjör fólks. Það er mjög erfitt og mjög lýjandi starf. Og ég fullyrði að Alþingi kemur ekki til neinnar hjálpar, það er engin hjálp að umræðu hér utan dagskrár um kjaramál. Það er bara þannig. (ÖJ: Á bara að þegja málið í hel?) Það er ekki verið að hjálpa því fólki sem er í því erfiða starfi að ná samningum. Ég þekki það og hv. 13. þm. Reykv. á að þekkja það líka. Þetta er vandaverk og menn leggja sig mjög fram. Þeir sem standa fyrir utan slíkt og koma og ræða í púlti Alþingis um þessa hluti leggja málinu ekki lið. Þeir eru bara til trafala, þeir eru bara til að gera þetta erfiðara. (ÖJ: Á hvern hátt vill hv. þm. leggja málinu lið?) Þannig leggja menn málum lið, að láta það góða fólk sem um samningana fjallar, vera í friði. Þannig vinna menn best.