Kjaramál sjúkraliða

Fimmtudaginn 11. október 2001, kl. 10:50:29 (404)

2001-10-11 10:50:29# 127. lþ. 9.94 fundur 64#B kjaramál sjúkraliða# (umræður utan dagskrár), PHB
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 127. lþ.

[10:50]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Við ræðum hér um kjaramál sjúkraliða sem sinna erfiðum störfum og standa vaktina allan sólarhringinn meira og minna. Hins vegar finnst mér mjög varasamt, herra forseti, að verið sé að færa kjarasamninga inn í sali hv. Alþingis. Annars vegar situr hv. frummælandi sem annar aðilinn að deilunni og hins vegar situr hæstv. fjmrh. sem hinn aðilinn. Þetta er náttúrlega ekki nægilega gott, herra forseti.

Í kjarasamningum koma iðulega fram villandi upplýsingar. Menn tala um byrjunarlaun, dagvinnulaun o.s.frv. sem gefa oft og tíðum afskaplega lélega mynd af heildarlaunum viðkomandi stéttar. Og þetta er gert vísvitandi. Nú er ég ekki að segja að þær tölur sem hér hafa verið nefndar séu mjög villandi. En það er alveg öruggt að laun sjúkraliða eru hærri en þetta, sem og annarra stétta.

Herra forseti. Það gleymist alltaf hver borgar. Öll laun opinberra starfsmanna eru greidd með sköttum almennings í landinu, sköttum annarra launþega. Svo eru það ekki bara launin sem við erum að fjalla um, við erum líka að fjalla um lífeyrisskuldbindingarnar. Og þær hafa hækkað um 100 milljarða, herra forseti, á síðustu fimm árum, sem gera 5 millj. á hvern einasta starfandi opinberan starfsmann. Það er búið að hækka laun þeirra, hækka eignir þeirra um 5 millj. Og þetta skuldar restin af þjóðinni því að enn á eftir að gera upp 140 milljarða til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins sem gera yfir milljón á hvern einasta vinnandi Íslending.

Laun opinberra starfsmanna hafa hækkað umtalsvert umfram önnur laun undanfarin ár þannig að við þurfum að horfa á þessa deilu, sem er síðasta deilan í þessari lotu eins og hæstv. fjmrh. nefndi, í því ljósi. Ég bið menn um að horfa líka til lífeyrisréttarins sem enginn virðist meta og síst af öllu opinberir starfsmenn.