Kjaramál sjúkraliða

Fimmtudaginn 11. október 2001, kl. 10:52:40 (405)

2001-10-11 10:52:40# 127. lþ. 9.94 fundur 64#B kjaramál sjúkraliða# (umræður utan dagskrár), RG
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 127. lþ.

[10:52]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Forseti. Hvernig má það vera að eilíft sé logandi eldur á milli ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar og starfsstétta ríkisins sem semja þurfa um kjör sín? Það er friður á almennum vinnumarkaði þar sem menn umgangast af virðingu en hjá ríkinu hirða menn ekki um að ræða við fólk sem er með lausa samninga. Hér er beðið um frið til þess að ræða saman og haft um það orð að hér séu rædd alvarleg samfélagsmál inni á þingi. Og 5. þm. Vestf. segir: Megum við fá frið til að ræða saman? Ég ætla að benda á að samningar hafa verið lausir frá 1. nóvember í fyrra, í heilt ár. Skyldi hafa verið friður til að ræða saman?

Og er það til umhugsunar að umönnunar- og uppeldisstéttir hafa með hörku þurft að sækja rétt sinn til flokks allra stétta --- og það kjörorð er nú orðið háðulegt öfugmæli --- er það alvarlegt umhugsunarefni fyrir fólk? Ég segi já, af því að það stefnir í flótta úr umönnunarstörfum. Ætlum við að una því? Ég segi nei.

Stefnum við hraðbyri í sömu þróun og sums staðar annars staðar, að fólk erlendis frá sem sækir okkur heim til að lifa með okkur í velferðarríkinu sitji uppi með þungu umönnunarstörfin illa launuð? Ætlum við þangað eða ætlum við að burðast við að jafna leikinn í þessu samfélagi?

Hverjir hafa svo verið að leita réttar síns við ríkisstjórn Davíðs Oddssonar og þurft að grípa til óyndisúrræða? Fyrst og fremst fagstéttir sem eru að meiri hluta konur. Kvennastéttir dragast aftur úr. Jafnrétti á launamarkaði er að verða jafnfjarlægur draumur og á áttunda áratugnum þegar konur risu upp gegn óréttlætinu.

Og nú eru sjúkraliðar í verkfalli. 100 hafa sagt upp. Þær hafa dregist aftur úr og allir vita það. Þær bera sig saman við karlastéttir og vilja að kjör stétta séu skoðuð. Komum okkur nú að verki.