Kjaramál sjúkraliða

Fimmtudaginn 11. október 2001, kl. 10:56:22 (407)

2001-10-11 10:56:22# 127. lþ. 9.94 fundur 64#B kjaramál sjúkraliða# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 127. lþ.

[10:56]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það var að þessu sinni hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson sem var hér í hinu klassíska hlutverki þingmanna Sjálfstfl. og stjórnarliðsins að ónotast út í það að mál af þessu tagi séu rædd á Alþingi. Auðvitað vill Sjálfstfl. ekki að athygli sé vakin á þessari deilu hér á Alþingi. Og auðvitað vill Sjálfstfl. helst að fjölmiðlar þegi um þetta verkfall þannig að athygli þjóðarinnar sé ekki dregin að smánarlegum launum sjúkraliða og því ófremdarástandi sem skapast vegna verkfalls þeirra. Og allra síst vill Sjálfstfl. að þetta sé rifjað upp á þeim degi sem hann ætlar að setja glanshátíðina miklu, landsfund sinn.

En sem betur fer, herra forseti, er ekki svo komið enn þá að við þurfum leyfi Sjálfstfl. til að taka upp mál hér á Alþingi, því ráðum við sjálf sem hingað erum kjörin. Og það er eðlilegur hlutur og sjálfsagður að athygli sé dregin að því ástandi sem þarna er að skapast. Og ég fullyrði að það hefur hjálpað í kjaradeilum sambærilegra stétta á undanförnum mánuðum að athygli væri vakin á málum þeirra hér inni á þingi eins og dæmið frá kennaradeilunni sýnir.

Það alvarlega, herra forseti, er fólgið í samskiptunum sem þarna eru orðin föst í sessi. Það er ekki talað við stéttir, sérstaklega ekki ef um er að ræða umönnunar- eða uppeldisstéttir, fyrr en þær eru búnar að standa í löngu verkfalli eða öðrum aðgerðum. Kennarar, lögreglumenn, sjúkraliðar, sjúkraþjálfar, þroskaþjálfar, hjúkrunarfræðingar --- meira og minna allar þessar stéttir geta sagt sömu sögu. Þær voru samningslausar lon og don, það var ekki við þær talað fyrr en þær voru búnar að beita einhverjum þeim aðgerðum sem þeim var heimilt.

Þetta gengur ekki, herra forseti. Og það er auðvitað sérstaklega til skammar að sjúkraliðar skuli nú sitja nánast einir eftir með mjög léleg laun, ein mikilvægasta fagstétt heilbrigðisþjónustunnar, það er viðurkennt af öllum. Hvað stendur í vegi fyrir því að þeir fái sambærilega leiðréttingu launa sinna og aðrir hafa verið að fá á undanförnum missirum? Það er algjörlega óskiljanlegt að þeir skuli þurfa að fara í hörkuverkfall til þess að við þá sé talað.