Fjáraukalög 2001

Fimmtudaginn 11. október 2001, kl. 11:04:14 (410)

2001-10-11 11:04:14# 127. lþ. 9.1 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv., fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 127. lþ.

[11:04]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til fjáraukalaga fyrir árið 2001 sem lagt hefur verið fram í þinginu að þessu sinni mun fyrr en vant er.

Ég vil leggja áherslu á að frv. kemur snemma fram til þess að geta m.a. greitt fyrir því að fjárln. þingsins geti lokið störfum sínum, bæði að því er varðar fjáraukalög þessa árs og fjárlagafrv. fyrir næsta ár, á þeim tíma sem ráðgerður er samkvæmt starfsáætlun þingsins. Ég tel að þessi þróun sé mjög jákvætt nýmæli, þ.e. að flytja þessi mál framar á dagskrá þingsins og leggja fjáraukalögin fram í fyrstu viku þings eða þar um bil.

Samkvæmt frumvarpinu eru tekjur ríkissjóðs áætlaðar óbreyttar frá því sem gert er ráð fyrir í fjárlögum ársins, en innbyrðis breytingar eru nokkrar. Í frumvarpinu kemur jafnframt fram að lagt er til að útgjöld ríkissjóðs hækki um 13,4 milljarða króna sem að stórum hluta skýrist af breytingum á launum ríkisstarfsmanna, eins og hér var til umræðu áðan, gengisbreytingum og breytingum á bótum almannatrygginga, auk nokkurra sérstakra tilefna.

Frumvarpið ber með sér þær breytingar sem orðið hafa í efnahagsmálum á árinu en verulega hefur dregið úr innlendri eftirspurn og innflutningi sem aftur hefur áhrif á skatttekjur ríkissjóðs til lækkunar. Þegar dregur úr þenslu í efnahagslífinu er mikilvægt að staða ríkissjóðs er það sterk fyrir að hægt er að mæta þeim samdrætti án þess að kollsteypur verði og grípa þurfi til aðgerða sem þrengja hag heimila og fyrirtækja eins og áður gerðist oft við svipaðar aðstæður. Áfram hefur verið unnið að hertri framkvæmd fjárlaga og lögð áhersla á að brugðist verði við umframútgjöldum innan ársins og hallarekstur stofnana aðeins bættur ef sýnt er fram á að gripið hefur verið til þeirra aðgerða að reksturinn verði framvegis innan fjárheimilda. Loks eru ekki veitt viðbótarframlög nema í þeim tilvikum að þau séu ófyrirséð eða vegna nýrrar lagasetningar Alþingis eða sérstakra ákvarðana ríkisstjórnarinnar.

Þrátt fyrir að tekjur ríkissjóðs séu óbreyttar í heild frá áætlun fjárlaga eru nokkrar breytingar, eins og ég sagði, til hækkunar og lækkunar á einstökum liðum teknadálksins. Nú er áætlað að skatttekjur verði 5 milljörðum króna lægri en áætlað var í fjárlögum en á móti er gert ráð fyrir auknum söluhagnaði af eignum og er því heildarniðurstaðan óbreytt að því er varðar tekjurnar. Nokkuð skiptir í tvö horn í þróun skatttekna. Áætlað er að virðisaukaskattur skili tæplega 9 milljarða minni tekjum en áætlað var en á móti kemur að skattar á laun, hagnað og eignir verða 3,4 milljarðar umfram áætlanir. Í tekjunum koma þannig glögglega fram áhrif samdráttar í neyslu heimilanna, sem einkum birtast í minni innflutningi, auk þess sem fjárfesting er talin dragast saman á árinu. Tekjuskattar einstaklinga, tryggingagjald og eignarskattar skila meiri tekjum en áætlað var, meðal annars vegna meiri launabreytinga en forsendur fjárlaga gerðu ráð fyrir. Heildartekjur verða þannig 253 milljarðar og er sú áætlun byggð á þróun innheimtu það sem af er ári sem og niðurstöðu ríkisreiknings 2000 auk framvindu efnahagsmálanna. Fyrirvara verður að gera við áætlun um söluhagnað af eignum því sala á hlut ríkisins í Landssímanum hf. fer það seint fram á árinu að óvissa er um hvorum megin við áramót tekjurnar verða færðar. Tekjur geta því orðið lægri eða hærri en hér er áætlað vegna þessa og verða lagðar fram brtt. við þennan lið þegar niðurstaða úr tilboðum kjölfestufjárfesta liggur fyrir seinna í haust.

Fjárheimildir hækka um 13,4 milljarða samkvæmt frumvarpinu. Þar af skýra kjarasamningar, breytingar á gengi, hækkun bóta almannatrygginga, vaxtagjöld og fjármagnstekjuskattur af meiri eignasölu, sem að sjálfsögðu er bæði inn og út í þessu uppgjöri, samtals 10,2 milljarða króna. Afgangurinn nemur tæplega 1,5% af niðurstöðu fjárlaga 2001, eða 3,2 milljörðum. Þar af vegur þyngst endurmat vaxtabóta 600 millj. kr., kostnaður við undirbúning á sölu eigna 300 millj. kr., endurmat útgjalda Fæðingarorlofssjóðs 250 millj. kr. og kostnaður við að ljúka kennslu í framhaldsskólum vegna verkfalls á árinu 2000 230 millj. kr. Loks má nefna að útgjöld Lánasjóðs íslenskra námsmanna hækka um 270 millj. kr. vegna gengisbreytinga og hækkunar lána til skólagjalda, og sótt er um 120 millj. kr. framlag til að bæta eftirstöðvar tjóna af völdum jarðskjálftanna á Suðurlandi.

Af framkvæmdaliðum munar mest um 350 millj. kr. fjárveitingu til að greiða kostnað við ný fjárhagskerfi ríkissjóðs sem voru boðin út á árinu en kostnaður vegna þeirra hefur fallið að stærri hluta á þetta ár en ráð var fyrir gert í fyrri áætlunum. Þar er um að ræða flýtingu í kostnaði frá næsta ári yfir á þetta ár. Þá hefur ríkisstjórnin samþykkt tilboð verktaka um að flýta framkvæmdum við Reykjavíkurflugvöll og skýrir það 250 millj. kr. hækkun á þessu ári. Þó er flýtingin ríkissjóði án aukakostnaðar, og lækka framlög vegna þessa um sömu fjárhæð á næsta ári þótt kostnaðurinn sjálfur komi til greiðslu á því ári eins og til stóð. Hér er um það að ræða að verktakinn lánar ríkissjóði, lýkur framkvæmdinni á þessu ári en vegna samninganna kemur greiðslan til bókar á þessu ári þótt útborgun sé ekki fyrr en á því næsta. Loks er lagt til að framlög til flugvalla hækki um 108 millj. kr. í samræmi við flugmálaáætlun ársins 2000 og að framlög til nýframkvæmda í vegagerð verði aukin um 100 millj. kr. en þar er um að ræða fjármagn til þess að greiða fyrir framkvæmd þeirri sem hafin er við gatnamót Vesturlandsvegar og Víkurvegar.

Samtals eru útgjöld ríkissjóðs því áætluð rúmlega 232 milljarðar króna á næsta ári. Miðað við 253 milljarða tekjur verður þá afgangur í ríkissjóði um 21 milljarður á árinu og lækkar um 13 milljarða, eins og ég gat um við framsögu mína um fjárlagafrv. næsta árs. Handbært fé frá rekstri lækkar heldur minna eða um 11,5 milljarða, einkum vegna þess að lífeyrisskuldbindingar þær sem færðar eru til bókar á þessu ári koma ekki til greiðslu á árinu. Fjármunahreyfingar skila 33 milljörðum minna en fjárlög gerðu ráð fyrir og rýrnar því lánsfjárafgangur ársins um samtals 44,7 milljarða og verður samkvæmt þessu neikvæður um 6 milljarða króna.

Helstu skýringar á minni lánsfjárafgangi, auk minna handbærs fjár frá rekstri, eru að reiknað er með að 21 milljarður kr. af söluandvirði eigna verði greiddur í ríkissjóð á næsta ári þar sem sala eigna fer það seint fram á árinu, eins og ég gat um áðan, að nettósölutekjur sem koma í ríkissjóð verða um það bil 13 milljörðum lægri en áætlað var. Auðvitað skiptir ekki höfuðmáli hvorum megin við áramót þessar greiðslur lenda, og eðlilegt er að taka tillit til þess ef horft er á hinn mikla lánsfjárafgang sem ráðgerður er á næsta ári. Enn fremur er ljóst að ekki verður af 8 milljarða króna endurgreiðslu af lánum Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar sem til stóð að það fyrirtæki greiddi ríkinu á þessu ári, og verður unnið að því máli á næsta ári. Þar með koma þeir peningar ekki inn í lánsfjárafgang ríkissjóðs. Loks eru kaup hlutafjár og eiginfjárframlög um það bil 12 milljörðum króna hærri en gert var ráð fyrir í fjárlögum og skýrist það frávik að stærstum hluta af tvennu: Í fyrsta lagi er lagt til að greitt verði 9 milljarða stofnframlag til Seðlabanka Íslands í samræmi við nýlegar breytingar á lögum um bankann og yfirlýsingu sem gefin var út í sumar í tengslum við erlenda lántöku þá. Í öðru lagi er í samræmi við heimild í 7. gr. fjárlaga 2001 lagt til að ráðstafað verði um 2,8 milljörðum til að kaupa hlut sveitarfélaganna í Orkubúi Vestfjarða og þá fjármuni þarf að reiða fram.

Í ljósi breytinga á lánsfjárafgangi og stöðunnar á innlendum fjármálamarkaði á árinu hafa áform um lántökur og afborganir verið tekin til endurskoðunar eins og hefðbundið er. Er því lagt til að lántökur ríkissjóðs verði auknar um 33 milljarða frá því sem áætlað var í fjárlögum. Þar af eru 25 milljarðar sérstakt lán sem tilkynnt var um fyrr á árinu og ég var að nefna, en ætlunin er að verja því til þess að efla erlenda stöðu Seðlabanka Íslands auk þess að styrkja eigið fé bankans um þá 9 milljarða sem ég gat um. Hér er um að ræða óvenjulega lántöku vegna þess að hér er ekki um að ræða lán til þess að fjármagna framkvæmdir eða neitt þess háttar eins og hefðbundin erlend lán ríkisins hafa verið heldur er verið að nota þetta í þetta tvennt sem hvort tveggja er mjög mikilvægt. Mismunurinn sem hér stendur út af skýrist af auknum erlendum lántökum til að standa undir endurfjármögnun afborgana og vaxta af erlendum lánum ríkissjóðs sem komu til gjalddaga á árinu.

Þrátt fyrir að tekjuafgangur ríkissjóðs sé nokkru lægri en í fjárlögum 2001 tel ég að staða ríkissjóðs sé áfram gífurlega traust. Ef litið er á tekjur og gjöld án óreglulegra liða, svo sem lífeyrisskuldbindinga og söluhagnaðar af eignum, er niðurstaðan rúmlega 13 milljarða króna afgangur. Lækkun lánsfjárafgangsins skýrist að stærstum hluta af því að tekjur af sölu eigna færast yfir áramót, eins og ég drap á, og að lagt er til að stofnframlög og hlutafjárkaup nemi 12 milljörðum króna sem færast á hinn bóginn til eignar í efnahagsreikningi ríkisins.

Herra forseti. Ég hyggst ekki fara frekari orðum um þetta frv. Ég hef farið yfir helstu þætti í því og þær breytingar sem í því felast frá áætlun fjárlagaársins. Ég hyggst ekki rekja frekar einstaka liði í frumvarpinu umfram það sem gert hefur verið enda tel ég að 1. umr. máls af þessu tagi eigi að vera á almennum nótum. Ég legg til að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjárln. þingsins.