Fjáraukalög 2001

Fimmtudaginn 11. október 2001, kl. 11:15:21 (411)

2001-10-11 11:15:21# 127. lþ. 9.1 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 127. lþ.

[11:15]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Það sem ýtti við mér til að fara í andsvar við hæstv. ráðherra voru orð hans um kaup ríkisins á hlut sveitarfélaganna í Orkubúi Vestfjarða. Þetta mál hefur verið eitt alvarlegasta málið í fjármálum ríkisins og sveitarfélaganna núna síðustu ár, þ.e. hvernig ríkið tekur hreinlega eignir sveitarfélaganna upp í andvirði skulda þeirra við félagslega íbúðakerfið sem sveitarfélögin hafa lent í miklum vandræðum með.

Ég man ekki betur að í umræðum um Orkubúið síðasta vetur þegar þetta var samþykkt hefði því ítrekað verið lýst yfir að andvirði Orkubúsins yrði ekki tengt uppgjöri vegna félagslega íbúðakerfisins heldur yrði tekið á þeim málum á landsvísu, að skipuð hafi verið nefnd til að gera tillögur um hvernig ætti að standa að því.

Eftir því sem ég best veit, herra forseti, hefur ekkert komið út úr þessu nefndastarfi enn. Málin standa enn þannig að ætlunin er, að því er ég best veit, að ganga að eignum sveitarfélaganna á Vestfjörðum upp í skuldir, taka andvirði Orkubúsins upp í skuldir við félagslega íbúðakerfið, án þess að á þessu máli sé tekið í heild sinni á landvísu.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra: Hvað er að gerast varðandi skuldir félagslega íbúðakerfisins og lausnir þess á landsvísu?