Fjáraukalög 2001

Fimmtudaginn 11. október 2001, kl. 11:21:07 (414)

2001-10-11 11:21:07# 127. lþ. 9.1 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 127. lþ.

[11:21]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Ég harma að þingmaðurinn skuli harma þetta. Ég harma málflutning hans í þessu máli vegna þess að hann virðist ekki með nokkru móti geta áttað sig á því hvað hér er um að ræða. Hann talar eins og það eigi bara að taka Orkubúið og fara með það frá Vestfjörðum og hætta að selja íbúum þar rafmagn. Þetta er alveg ótrúlegur málflutningur.

Ég tel að þetta orkubúsmál sé hin besta aðgerð í þágu sveitarfélaganna. Ég tel mig geta varið hana þótt hún kosti ríkissjóð þessa 2,8 milljarða. Vissulega má um það deila hvort það kaupverð sé ekki allt of hátt. Það væri kannski málefnaleg gagnrýni frá hv. þm., að verið væri að fara illa með almannafé að kaupa þetta svona háu verði. En ég tel mig geta varið þetta verð á grundvelli þeirra útreikninga sem fyrir liggja um málið. Ég tel að það séu hagsmunir Vestfirðinga og sveitarfélaganna þar að eiga þessi viðskipti. Þess vegna höfum við farið út í þetta.

Ríkisvaldið er að koma til móts við sveitarfélögin á Vestfjörðum í þessu máli en ekki að níðast á þeim eins og hv. þm. heldur ítrekað fram, bæði núna og á síðasta þingi út af þessu máli. Hann talar eins og það sé verið að níðast á sveitarfélögunum fyrir vestan. Sum þeirra fá nokkur hundruð milljónir til ráðstöfunar út úr þessu. Ég man ekki betur en Ísafjarðarbær fái jafnvel rúman milljarð til ráðstöfunar í peningum til að laga til í skuldamálum sínum og greiða fyrir því að sveitarfélagið geti haldið áfram að byggja sig upp. Ég hélt að það væri einhvers virði fyrir íbúana þar og þá sem ráða för í þeim sveitarfélögum.