Fjáraukalög 2001

Fimmtudaginn 11. október 2001, kl. 11:22:58 (415)

2001-10-11 11:22:58# 127. lþ. 9.1 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv., EMS
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 127. lþ.

[11:22]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Það er rétt í upphafi að taka undir með hæstv. fjmrh. að það er afar gleðilegt hversu snemma við tökum fyrir frv. til fjáraukalaga. Það er ánægjulegt fyrst og fremst vegna þess að það tryggir að fjárln. geti samhliða unnið að fjárlagafrv. fyrir árið 2002 og frv. til fjáraukalaga fyrir árið 2001. Það er mikilvægt vegna þess að ella væri að hluta til um tvíverknað að ræða. Þess vegna ber að fagna því sérstaklega að þetta hafi náðst í þetta sinn. Það er óhætt að taka það fram einnig að margt í þessu fjáraukalagafrv. sýnir okkur að fleira hefur verið að færast til betri vegar þó enn höfum við ekki náð því marki sem sett var með fjárreiðulögunum síðustu.

Það er líka ánægjulegt við þetta að við þurfum þar af leiðandi ekki að endurtaka umræðu um forsendur fjárlaga. Svo stutt er hér á milli að eðlilegt er að notaðar séu sömu forsendur og sömu spár fyrir árið 2001 og gert er í fjárlagafrv. fyrir árið 2002. Því þarf ekki að endurtaka umræður, svo kunnar eru þær, um mismunandi spá fjmrn. og Þjóðhagsstofnunar, en þær koma fram í þessu frv. eins og í frv. til fjárlaga fyrir árið 2002.

Megineinkennið er eins og hæstv. fjmrh. benti á sú breyting sem orðið hefur í efnahagslífinu, þ.e. samdrátturinn, verðbólgan, gengisþróunin og viðskiptahallinn. Þetta kemur allt saman fram hér. Ég mun því ekki eyða tíma mínum í að endurtaka það sem við ræddum við 1. umr. um fjárlög fyrir árið 2002.

Það er ljóst, eins og ég sagði áðan, að við höfum ekki alveg náð þeim markmiðum sem sett voru með nýjum lögum um fjárreiður ríkisins. Við vorum á fundi í fjárln. í gær að ræða skýrslu sem Ríkisendurskoðun gaf út í apríl sl. um fjárlagaferlið. Þar er víða komið við og m.a. fjallað um fjáraukalög. Mig langar, með leyfi forseta, að vitna stuttlega í þessa skýrslu. Þar segir m.a.:

,,Valdi ófyrirséð atvik, kjarasamningar eða ný löggjöf því að grípa þarf til sérstakra fjárráðstafana sem ekki var gert ráð fyrir í fjárlögum ársins skal leitað heimilda fyrir þeim í frumvarpi til fjáraukalaga.``

Þetta er í raun tilvitnun í hin nýju fjárreiðulög. En síðan segir, með leyfi forseta:

,,Öðrum óskum um breyttar heimildir til fjárráðstafana skuli jafnan vísað til ákvörðunar Alþingis í tengslum við afgreiðslu fjárlaga fyrir næsta ár.``

Rökin fyrir þessu eru tilgreind í athugasemdum með frv. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Í fjáraukalögum innan fjárhagsárs verði fjallað um þær fjárráðstafanir sem ekki var hægt að sjá fyrir við afgreiðslu fjárlaga. Fjáraukalög snerust þannig fyrst og fremst um ófrávíkjanleg málefni en ekki um rekstrarvanda einstakra ríkisstofnana. Aðrar fjárhagsráðstafanir eiga að koma til umfjöllunar eftir atvikum við afgreiðslu fjárlaga fyrir næsta fjárhagsár eða við afgreiðslu lokafjárlaga fyrir síðasta fjárhagsár.``

Því miður, herra forseti, næst þetta markmið ekki algjörlega og m.a. er í frv. til fjáraukalaga verið að fjalla um ákveðinn rekstrarvanda einstakra ríkisstofnana. Þó er rétt að taka fram að þrátt fyrir að þarna sé markmiðið býsna skýrt þá eru auðvitað oft og tíðum æði óljós skilin þarna á milli og getur verið mikið álitamál hvort tilgreina eigi fjárheimildir í fjárlögum eða fjáraukalögum.

Ég mun á eftir fjalla lítillega um nokkur atriði sem ég tel að séu álitamál, sum að vísu að mínu mati augljóslega þess eðlis að þau eigi heima frekar í fjárlögum næsta árs heldur en í fjáraukalögum.

Herra forseti. Ýmislegt tengist þó fjáraukalögunum og ákvarðanir um hvað fari þar inn eru ekki síst í höndum ríkisstjórnar. Þó er ljóst að Alþingi ákveður allt sem tengist nýjum lögum, en það sem er ófyrirséð er oft og tíðum ákvörðun ríkisstjórnar.

Ég vil enn á ný, með leyfi forseta, vitna í þessa skýrslu frá Ríkisendurskoðun um fjárlagaferlið, því þar segir m.a.:

,,Þegar stofnað er til útgjalda án fjárheimildar en gengið út frá því að hennar verði leitað síðar, hefur fjárveitingavaldið í raun og veru verið fært frá þinginu. Búið er að stofna til útgjaldanna og því hefði neitun þingsins litla þýðingu. Auk þess er margt óljóst varðandi lagalega ábyrgð ráðherra neiti þingið að samþykkja fjárveitingu vegna útgjalda sem búið er að stofna til. Síðast en ekki síst er mjög ósennilegt að ríkisstjórn sem nýtur stuðnings meiri hluta þingmanna yrði synjað um fjárveitingu. Eftir á veitt fjárheimild felur þannig í sér raunverulegt framsal fjárveitingavaldsins til ríkisstjórnarinnar, enda þótt hið formlega fjárveitingavald sé áfram hjá þinginu.``

Herra forseti. Þetta var tilvitnun í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Það er rétt að vekja sérstaka athygli á þessari síðustu setningu og eðlilegt að brýna það fyrir ríkisstjórn að hún fari þar af leiðandi varlega með þetta vald sitt og gæti þess ætíð að gera þetta ekki nema í ýtrustu neyð því þarna er í raun verið að framselja, eins og hér segir, fjárveitingavaldið til ríkisstjórnar frá þinginu, þó svo að hið formlega vald sé þar.

Það verður því miður að segja að á nokkrum stöðum í þessu frv. til fjáraukalaga kemur fram að ekki, a.m.k. að mínu mati, hafi verið nægilega gætt aðhalds í því af hálfu ríkisstjórnarinnar að auka útgjöld án fjárheimilda.

Við höfum, minni hlutinn í fjárln., óskað eftir ýmsum upplýsingum sem því miður náðist ekki af hálfu fjmrn. að hafa tilbúnar fyrir þessa umræðu og þess vegna er vinna okkar í því að bera saman þessa hluti öllu erfiðari en ella hefði orðið. Þetta þýðir að sjálfsögðu að við munum fara betur yfir þessi mál í störfum fjárln.

Það sem við óskuðum eftir var að fá sundurliðun á því hvað væri í raun búið að ákveða og hvað væri verið að áætla til loka ársins, þ.e. fá algjörlega klára skýrslu um hvaða útgjöld hafi átt sér stað nú þegar án heimildar frá þinginu og hvað verið er að áætla fyrir.

Þetta rifjar að sjálfsögðu upp það sem áður hefur gerst milli umræðna um fjáraukalög, þá hefur oft og tíðum mikið bæst við af liðum sem ekki hafa komið fram í frv. sjálfu. En við verðum að vona að það sé eitt af því sem lagast hefur milli ára að nú verði mun minna um slíkt en áður hefur verið.

[11:30]

Fyrir ári var t.d. æðimargt sem kom upp á og rétt að vekja athygli á í samhengi við æðstu stjórnina, sem hið háa Alþingi er hluti af, að þar vekur að sjálfsögðu athygli nú að ekkert virðist hafa þurft að koma inn á hvað varðar Alþingi þetta árið. Eins og hv. þm. muna væntanlega komu ansi miklar upphæðir sem ollu nokkrum deilum, og sumar ekki fullskýrðar enn, á milli umræðna á síðasta ári. Við vonum að þingið hafi tekið sig sérstaklega á og þetta sé vísbending um að hér hafi ekki verið farið fram úr fjárheimildum.

Eins og ég sagði áðan var það þannig í fyrra að í frv. voru einnig núll krónur hjá Alþingi en milli umræðna komu síðan upp stórar tölur.

Herra forseti. Ég ætla að fletta örlítið fram og til baka í frv. og að hluta til spyrja hæstv. fjmrh. skýringa, en geri mér grein fyrir að hæstv. ráðherra mun væntanlega ekki eiga svör við þeim öllum. Ég vona að hæstv. ráðherra svari því sem hann hefur tök á.

Það sem fyrst vekur athygli er tengt heimildum, þ.e. heimild 8.23, þar sem verið er að leita heimilda til að stofna hlutafélag um rekstur landskerfis fyrir bókasöfn. Engin skýring er á því hvað er á ferðinni. Hvers vegna þarf að stofna um þetta hlutafélag, hverjir verða aðilar með ríkisvaldinu í því hlutafélagi og hvenær er ætlað að stofna hlutafélagið og hvert er væntanlegt hlutafé? Þess vegna spyr ég, af því að hvergi er gert ráð fyrir slíku hlutafé í frv.: Á þetta kannski frekar heima á fjárlögum næsta árs?

Annað vekur einnig athygli að heimildin er veitt en er þó skilyrt samþykki menntmrh. Maður hlýtur að velta því fyrir sér hvort þetta sé ekki að hluta til að beiðni menntmrh. Slík beiðni hlýtur að koma þaðan eða er þetta hugmynd sem hefur fæðst í fjmrn.?

Ef við förum aftur og skoðum athugasemdir við einstaka fjárlagaliði, þá vekur það athygli hjá forsrn. að þar er gerð tillaga um 20,7 millj. kr. fjárveitingu til skrifstofu forsrn. vegna aukins rekstrarkostnaðar skrifstofunnar í ár og í fyrra. Nú vísa ég til þess sem ég sagði áðan, um það sem fjárreiðulögin segja um fjáraukalög. Þess vegna hlýtur að vera um álitamál að ræða, því hér er m.a. gefin sem skýring að verkefni forsrn. hafi aukist á undanförnum árum. Það er ekki eingöngu bundið við það ár sem nú er að líða heldur undanfarin ár. Því enn spurt hvort ekki hefði verið eðlilegra að þetta hefði verið í fjárlögum.

Herra forseti. Sú tala sem vekur hvað mesta athygli er einnig undir forsrn. og óhjákvæmilegt að leita skýringa á henni. Lagt er til að veitt verði 300 millj. kr. aukafjárveiting vegna kostnaðar við sölu á hlutabréfum ríkisins. Um er að ræða kostnað vegna ráðgjafar, umsjónar með sölu og frágangs skjala. Rétt er að taka fram að á fjárlögum er áætlað að þessi liður sé 15 millj. kr. Hér er því um býsna mikla hækkun að ræða. Því er nauðsynlegt að fá á því skýringar hvað þetta er og hvernig þetta skiptist. Varla er um eina tölu að ræða vegna eins verkefnis eða eins þáttar í einu verkefni. Þetta er líklega ein mesta hækkun sem fram kemur í frv. og eðlilegt, m.a. í ljósi þeirra umræðna sem átt hafa sér stað um einkavæðingarmál, að þetta sé skýrt því býsna langt er farið frá þeirri áætlun sem vinna átti eftir.

Þá er einnig eðlilegt, þegar verið er að fjalla um forsrn. sem er það ráðuneyti sem væntanlega á helst að vera leiðbeinandi fyrir önnur ráðuneyti, að velta því fyrir sér að farið er fram á 10 millj. kr. viðbótarfjárveitingu til endurbóta og viðhalds á Þingvallabænum í samræmi við ríkisstjórnarsamþykkt frá 13. febrúar sl. Hér er verið að vinna að þörfu verki, að endurbæta og viðhalda Þingvallabænum. En það er eðlilegt að spurt sé þegar tekin er ákvörðun svo snemma árs, þ.e. 13. febrúar, um að bæta við fjárveitingum um 30%, hvort framkvæmdum verði lokið fyrir þetta fjármagn eða hvort þetta sé áætlað á þeim mánuðum sem eftir eru ársins. Eða hvað var það í þessum efnum sem var algjörlega ófyrirséð í desembermánuði þegar við gengum frá fjárlögum fyrir árið 2001?

Næst er ráðuneyti menntamála og þar vekja athygli í fyrsta lagi tveir þættir sem ég held að eðlilegt sé að horfa a.m.k. til hvort ekki hefðu frekar átt heima á fjárlögum. Það eru vissulega hin þörfustu verk sem tengjast hvort um sig rannsóknum. Þetta er annars vegar liðurinn 1.02 Rannsóknir og önnur verkefni og hins vegar 6.60 Vísindasjóður. Annars vegar er verið að leita eftir heimild um 80 millj. kr. vegna fyrirhugaðs samnings um rannsóknir á vegum háskólans. Þá koma upp spurningarnar: Hvenær er gert ráð fyrir að þessum samningi ljúki? Og er eðlilegt að verið sé að áætla fjármuni vegna fyrirhugaðs samnings? Samningurinn virðist samkvæmt þessu ekki tilbúinn. Reynir þetta svo mjög á á síðustu mánuðum að þetta megi ekki bíða fjárlaga næsta árs?

Sama má segja raunverulega um vísindasjóðinn, þar sem farið er fram á 40 millj. aukafjárveitingu til að auka styrki til vísindarannsókna. Eins og ég sagði áðan er hvort tveggja afar mikilvæg verkefni, en með hliðsjón af fjárreiðulögunum er spurning hvort þetta hefði ekki frekar átt heima í fjárlagafrv.

Herra forseti. Undir menntmrn. er býsna stór og mikilvægur kafli sem ég get væntanlega ekki fjallað eins ítarlega um og ég hafði ætlað mér vegna þess að tíminn líður gjarnan fljótt í ræðum um þessi málefni, þ.e. framhaldsskólar landsins. Ég hef undanfarin ár vakið sérstaka athygli á því að þar sé ákveðinn vandi innbyggður að því er virðist í kerfinu og því miður virðist ekki vera ætlunin að taka á þeim vanda, hvorki í fjárlagafrv. sem liggur fyrir, þar sem hefði í raun verið eðlilegast að taka á vandanum, né í fjáraukalagafrv. sem ég hef bent á að er þó gert gagnvart ýmsum stofnunum.

Það vekur athygli þegar tölur eru skoðaðar varðandi framhaldsskólana að sumir þeirra voru t.d. um síðustu áramót með mikinn hala. Og þegar skoðaðar eru síðan nýjustu tölur sem ég hef undir höndum, sem eru frá mánaðamótunum ágúst/september, þá er augljóst mál að flestir ef ekki allir þeir skólar sem voru með þennan hala um síðustu áramót eru enn þá með svipaðan hala um mánaðamótin ágúst/september. Það segir okkur að lítið eða ekkert hefur verið gert í málum þeirra. Það sem er alvarlegast er að ég sé ekki betur en að sumir skólarnir hafi jafnvel verið að auka halann. Þeir skólar sem voru jafnvel með engan eða lítinn hala um áramót hafa nú fengið og sitja nú uppi með enn stærri hala.

Í fjáraukalagafrv. er eingöngu mætt ákveðnum hlutum sem tengdust verkfallinu og einstökum öðrum þáttum en því miður virðist ekki tekið á þessum kerfisvanda. Ég held að ljóst sé að framhaldsskólarnir verði eitt stærsta viðfangsefnið okkar í fjárln. á þessu hausti. Við höfum áður fjallað um misjafna en sem betur fer betri stöðu heilbrigðisstofnana og farið sérstaklega yfir þau mál. Ég held að við blasi að það verði okkar stóra verkefni núna, í einstökum stofnunum, að skoða stöðu framhaldsskólanna.

Einnig er athyglisvert að meðan hali skólanna vex virðast ákveðnir safnliðir í ráðuneytinu þrútna út. Það hlýtur maður að tengja umræðunni um hið fjárhagslega sjálfstæði stofnananna og ábyrgð forstöðumannanna. Þegar safnliðir safnast þannig upp og er útdeilt samkvæmt ákvörðunum í ráðuneytinu sjálfu, oft á tíðum að því er virðist á síðustu mánuðum eða síðustu vikum ársins eða jafnvel á fyrstu vikum næsta árs þar á eftir, þá hlýtur það að gera stjórnendum þessara stofnana mjög erfitt fyrir að standa við þetta fjárhagslega sjálfstæði og sinna hinni fjárhagslegu ábyrgð, sem er auðvitað afar mikilvægt ef á að ná tökum á rekstri slíkra stofnana.

Herra forseti. Eins og ég sagði áðan er ljóst að ég næ ekki að koma í ræðu minni inn á öll þau atriði sem ég taldi nauðsynlegt að gera. Ég mun því koma hér væntanlega aftur seinna í dag og bæta nokkru þar við.

En ef ég held mig áfram við menntmrn. þá er líka athyglisverður liður sem kemur fram hér varðandi Iðnskólann í Hafnarfirði. Eðlilegt er að spurt sé út í hann vegna þess að þarna er um einkaframkvæmd að ræða. Hér er gerð tillaga um aukafjárveitingu vegna virðisaukaskatts, eins og það er orðað, af húsaleigu. Áður var gert ráð fyrir að hún fengist endurgreitt. Það hlýtur að vera eðlilegt að spyrja að því hvernig á því standi að þetta lá ekki ljóst fyrir þegar samningar voru gerðir um þessa einkaframkvæmd, ég tala nú ekki um þegar fjárlög fyrir þetta ár voru samþykkt. Ég óska skýringa á því hvernig á því standi að menn hafi haldið að þeir fengju virðisaukaskattinn endurgreiddan þegar í ljós kemur að svo er alls ekki.

Hér eru síðan tveir liðir varðandi Menningarsjóð og Menningarsjóð félagsheimila, sem virðast tilkomnir vegna atburða sem gerðust árið 1998. Það er auðvitað eðlilegt að spurt sé hvernig standi á því að það er ekki fyrr en í fjáraukalögum ársins 2001 sem slíkt kemur upp. Hvað hefur farið úrskeiðis í fjárhagskerfi ríkisins þegar svona getur dregist allan þennan tíma?

Herra forseti. Að lokum er eitt atriði sem nauðsynlegt er að spyrja hæstv. fjmrh. um vegna þess að hjá fjmrn. er einn þáttur sem hefur vakið sérstaka athygli mína og er nauðsynlegt að fá skýringar á, þ.e. skýrsluvélakostnaður. Farið er fram á töluvert aukna fjárheimild vegna þessa árs vegna samnings sem fjmrn. hefur gert við Skýrr hf. Því er eðlilegt að spurt sé hvernig á því standi að samningurinn sé svo fjarri því sem gert var ráð fyrir í fjárlögum. Hvernig var útboðið? (Forseti hringir.) Var ekki gert ráð fyrir þeirri dreifingu kostnaðar sem gert var ráð fyrir í fjárlögum eða er búið að breyta þessum samningi miðað við það útboð sem aðrir aðilar þurftu að miða við þegar þeir gerðu tilboð í verkið?