Fjáraukalög 2001

Fimmtudaginn 11. október 2001, kl. 11:44:12 (417)

2001-10-11 11:44:12# 127. lþ. 9.1 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv., EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 127. lþ.

[11:44]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Ég get að sjálfsögðu ekki skýrt út fyrir hv. þm. hvernig standi á því að sú heimild sem hv. þm. gerði ráð fyrir að væri í fjáraukalagafrv. er þar ekki.

Vegna þess sem hann ræddi um Austurstrætið og orðræðu mína um það þá var enginn dómur í orðum mínum um hvað raunverulega hefði gerst. En það er alveg ljóst að enn er ósvarað því miður of mörgum spurningum sem upp hafa komið um þau gögn sem borist hafa til fjárln. og afar nauðsynlegt er allra aðila vegna að skýr svör fáist við þeim. Ég get tekið undir með hv. þm. að nauðsynlegt er og gott að þingið treysti sér til að halda algjörlega utan um framkvæmdir við Skálann og við skulum vona að það verði til þess að þar verði allar áætlanir nákvæmar og standist allar skoðanir og þá þróun sem á byggingunni verður.