Fjáraukalög 2001

Fimmtudaginn 11. október 2001, kl. 12:44:18 (427)

2001-10-11 12:44:18# 127. lþ. 9.1 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 127. lþ.

[12:44]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Það sem ég var að reyna að segja, þegar hv. þm. fór að tala um að sá sem hér stendur og annar þingmaður hefðu ekki trú á ríkisstjórninni --- og það var það sem ég kallaði útúrsnúning --- og að eitthvert vantraust væri á ríkisstjórnina þó að menn væru í hreinskiptnum umræðum hér um málefni eins og fjárlögin (Gripið fram í.) þá er það auðvitað ekkert vantraust að ræða málin opinskátt, síður en svo. Það sýnir frekar styrk og það að menn eru ekki hræddir við að tala um málin.

Ég verð að viðurkenna, herra forseti, eins og ég sagði áðan, að það er ýmislegt sem má betur fara og það samráð sem hv. þm. var að tala um mætti vera meira við einstaka þingmenn í fjárln. um umframkeyrslur sem eru mjög margar. Flestar af þeim eru hugsanlega þess eðlis að um þær er ekki hægt að hafa mikið samráð en svo eru aðrar sem er vel hægt að hafa samráð um. Ég vil upplýsa það að yfirleitt er ekki neitt samráð um þær, yfirleitt ekki. Ég tel að úr því megi bæta.